Góð vika: Pétur Einarsson
Pétur Einarsson, fyrrverandi hótelstjóri og flugmálastjóri, sem glímir við ólæknandi krabbamein átti góða viku þrátt fyrir sjúkdóminn. Í síðustu viku kvæntist hann sambýliskonu sinni til margra ára, Svanfríði Ingvadóttur, og þessi vika bauð einnig upp á gleðilegar uppákomur. „Þetta er búinn að vera ógnar góður dagur,“ segir Pétur á bloggsíðu sinni. „Hér kom Dóra frá heimilisumönnun Akureyrar. Hún er bæði hlý og hjálpsöm. Svo kom hér glænýtt sjúkrarúm handa Gamla hróinu, greitt af Sjúkratryggingum Íslands.“
Pétur þakkar heilbrigðiskerfinu hjartanlega fyrir þjónustuna. „Ég er aldeilis dolfallinn yfir okkar góða heilbrigðiskerfi. Ég á varla til orð yfir því hvað ég er þakklátur og auðmjúkur. Þökk og aftur þökk sé okkar frábæra heilbrigðiskerfi.“ Þegar deginum lauk síðan með bæjarferð og útréttingum eftir langa inniveru var gleðibikar Péturs fullur. „Ég er eins og nýr maður, því ég hef ekki farið út úr húsi um hríð – ég er alveg búinn að gleyma því að ég sé helsjúkur,“ segir hann í blogginu.
Slæm vika: Aðilar í ferðaþjónustu
Ferðabann og heimsfaraldur hefur lagst þungt á aðila í ferðaþjónustu og biðu þeir því spenntir eftir öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í von um að eitthvað yrði gert til að létta þeim róðurinn. Sú von brást ef marka má skrif ferðaþjónustuaðila í Facebook-grúppunni Bakland ferðaþjónustunnar. Þá lét einn eigenda ferðaþjónustufyrirtækisins Pink Iceland heyra í sér á Facebook vegna málsins. „Niðurstaðan er sú að við megum taka 6 milljón króna lán á ágætis vöxtum,“ segir hann og bendir á að það þýði aðeins eitt, fyrirtækið muni þurfa að segja upp öllu starfsfólkinu og missa þá um leið rétt á þátttöku í hlutabótaleið sem muni ganga að fyrirtækinu dauðu.
Fleiri aðilar ferðaþjónustu boða uppsagnir og skipulagsbreytingar til að bregðast við tapi, til að mynda hefur Icelandair boðað miklar uppsagnir um mánaðamótin. Það er því óhætt að segja að vikan hafi ekki beinlínis verið draumavika í ferðaþjónustunni.