Upp komst um gluggagægi í Laugardalnum í gær.
Greint frá því í hverfishóp í Laugardal á Facebook að gluggagægir væri á ferðinni um hverfið. Þar sagði íbúi hverfsins frá því að hann hefði gripið einstakling með stóra myndavél og aðdráttarlinsu að mynda inn um glugga íbúans. Þegar ljósmyndarinn áttaði sig á því að upp hefði um hann komist hoppaði hann í bíl og brunaði í burtu. „Gat ekki hraðað sér meira í burtu þegar hann sá mig,“ skrifaði íbúinn.
Útlitslýsing frá íbúanum er svo hljóðandi: „Axlarsítt grásprengt hár, nettur, 170cm í dökkum fötum.“
Íbúinn skrifaði niður bílnúmerið og eftir að hafa flett því upp á netinu kom í ljós að bílinn er skráður á bílaleigu. Málið var tilkynnt til bílaleigunar. Ekki er tekið fram að hvort málið hafi verið tilkynnt til lögreglu. Aðrir íbúar hverfisins þökkuðu fyrir að láta vita og segjast margir ætla vera á varðbergi.