Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við HÍ, segir vinnuaðstæður lögreglumanna óviðunandi.
Í samtali við mbl.is sagði Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við HÍ, að það sé óásættanlegt að lögreglumenn geti búist við hótunum í vinnunni en lögreglumenn segja vinnuumhverfi þeirra fara versnandi.
„Lögreglumenn eru opinberir embættismenn sem eru að sinna sínum starfsskyldum og það er algerlega óviðunandi að þeir þurfi að búa við slíkt umhverfi og þola hótanir og fleira,“ sagði Helgi um málið en þó að lögreglumenn hafi alltaf þurft að takast á við hótanir þá virðist þeim vera fjölga og sé algengara að staðið sé við þær. „Það er áhyggjuefni, að sjálfsögðu mest fyrir þá lögreglumenn sem eru á vettvangi en þetta er líka áhyggjuefni fyrir okkur sem samfélag, því þeir eru okkar fulltrúar sem gæta almannaöryggis. Við viljum að sjálfsögðu að þeir séu öruggir í sínu starfi og þetta viljum við því ekki sjá og þurfum að draga sem mest úr.“