Hagsmunasamtök heimilanna fordæma Seðlabankann fyrir vaxtahækkun bankans.
Seðlabanki Íslands tilkynnti nú í morgun að ákveðið hefði verið að hækka vexti bankans um 0,5% og verða því meginvextir bankans 9,25%. Þetta gagnrýna Hagsmunasamtök heimilanna harðlega í nýrri tilkynningu.
„Verðtryggð lán veita eingöngu tímabundið svikaskjól en það mun hverfa áður en langt um líður og þá munu tugþúsundir heimila standa á berangri, varnarlaus fyrir ásókn banka, sem eins og dæmin sanna munu ekki hika við að hirða af þeim húsnæðið og senda þau á götuna,“ segir í tilkynningunni frá samtökunum.
„Hagsmunasamtök heimilanna lýsa fullri ábyrgð á hendur þeim einstaklingum sem sitja í peningastefnunefnd og ráðherrum í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, á skelfilegum afleiðingum þessara aðgerða þegar skjól verðtryggingarinnar hverfur og heimilin sitja föst í gildrunni sem nú er verið að leggja fyrir þau.“