Föstudagur 15. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Daníel gefur út plötur tvo daga í röð: „Stundum er alltof mikið að gera“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Daníel Helgason, einn færasti gítarleikari landsins, gefur loksins út fyrstu sólóplötuna.

Það eru ekki margir tónlistarmenn sem gefa út tvær plötur á einu ári en Daníel Helgason bætir um betur og gefur út plötur tvo daga í röð. Daníel hefur lengi verið einn af færustu gítarleikurum landsins og hann hefur verið virkur þátttakandi í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár með Los Bomboneros, DÓH tríó, Unu Stef og fleirum en Daníel er einnig tónlistarkennari. Daníel er uppalinn Breiðhyltingur og býr þar með konu sinni og dætrum. Mannlíf ræddi við Daníel um hvernig það kom til að gefa út plötur tvo daga í röð.

„Þetta var nú engan veginn planað svona,“ sagði Daníel í samtali við Mannlíf. „Ein af hljómsveitunum sem ég er í, Los Bomboneros, tók upp þessa plötu fyrir um það bil 2 árum síðan og við vorum alltaf að fresta útgáfu út af Covid. Okkur langaði að getað haldið upp á þetta með stæl og þegar það stóð til að koma fram á Jazzhátíð Reykjavíkur slógum við því bara upp sem útgáfutónleikum og salsaball í leiðinni núna á laugardaginn,“ en með Daníel í hljómsveitinni eru þau Alexandra Kjeld, Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir og Kristofer Rodriguez Svönuson.

Daníel glæsilegur með gítarinn – Mynd: Hans Vera

„Svo á meðan þessi vinna var í gangi lagði ég loksins í það að taka upp sólóplötu. Eitthvað sem er búið að vera á dagskránni í mörg ár,“ sagði gítarleikarinn knái um hans fyrstu sólóplötu. „En ég lét loksins af því verða í byrjun árs og hóaði í þá Birgi Stein Theodórsson, bassaleikara, og Matthías Hemstock, trommuleikara, og tók eina æfingu til að renna þessum lögum sem ég var að semja. Svo bókaði ég stúdíóið Sundlaugina í páskafríinu en náði ekkert að æfa aftur með þeim og hjólaði bara í eina óæfða jazzplötu. Fyrir vikið er þetta allt frekar „spontant“ og lifandi og ég er mjög ánægður með útkomuna. Albert Finnbogason tók plötuna upp og „mixaði“ alveg einstaklega vel. Hönnun umslags var svo í höndum frænku minnar hennar Bergþóru Jónsdóttur. Þannig að það endaði bara sem fyndin tilviljun að bæði þessi verkefni voru að gefa út plötur akkúrat á sama tíma og bæði valin inn á Jazzhátíð,“ en sólóplata Daníels kemur út föstudaginn 25. ágúst og báðir útgáfutónleikar hans verða haldnir í Hörpu á Jazzhátíðinni.

En þó að plöturnar komi út nánast á sama degi þá eru þær gjörólíkar.

Það er gígantískur munur á þessum plötum,“ sagði Daníel um muninn á plötunum. „Platan mín, Particles, er einhverskonar ambient free jazz með miklu spilafrelsi og spuna á meðan Los Bomboneros platan, ¡Mambó! er stuðplata með áherslur á afro-latin músík innblásin af norðurhluta Suður-Ameríku og Mið-Ameríku. Það var líka mikill munur á vinnslu þeirra. Particles var unnin frekar hratt því músíkin er þess eðlis að það þarf ekki að eyða miklum tíma í eftirvinnslu á meðan ¡Mambó! var lengra ferli því það eru fleiri hljóðfæri og söngur og lúmskt erfitt að ná þessu heim og saman. En okkur tókst vel til og platan hljómar mjög „retro“ og gamaldags en samt spennandi hljómur á henni.“

- Auglýsing -
Los Bomboneros – Mynd: Lilja Birgisdóttir

Daníel og hæfileikar hans hafa vakið athygli allt frá því að hann var unglingur að setja lög inn á heimasíðuna rokk.is. Þá hlaut Daníel fyrir verðlaun sem bjartasta vonin í djass og blús flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2018. Hverju breyttu þau verðlaun fyrir hann?

„Þau breyta í rauninni ekki miklu, þannig séð. Ég er auðvitað mjög þakklátur að fá þessi verðlaun og var líka tilnefndur fyrir fleiri verðlaun það sama ár. Það var kannski svona næstu daga á eftir tónlistarverðlaunin að maður fór að hugsa hvort þetta myndi eitthvað auka væntingar fólks fyrir því hvað maður væri að gera. En á sama tíma þá eru ekkert margir hérlendis sem fylgjast með spuna-jazz senunni eða latín senunni þannig að ég held að það sé engin auka pressa ef út í það er farið.“

„Það er margt spennandi að gerast hérlendis í öllum senum og gróskan er svo mikil,“ sagði Daníel um íslenskt tónlistarlíf í dag. „Hef mjög gaman af Unu Torfa og Árnýju Margréti því þær eru mjög flottir lagahöfundar. Svo er margt spennandi á Jazzhátíð líka sem ég mæli með að kíkja á eins og trommuleikarann Óskar Kjartansson sem gaf út stórkostlega plötu, Gork, í fyrra. Einnig ber að nefna píanistana Benjamín Gísla og Önnu Grétu. Svo eru allskonar spennandi listamenn að koma fram á hátíðinni eins og Insomnia Brass Band sem vann nýverið þýsku jazztónlistarverðlaunin og trommuleikarinn Gard Nilssen sem leiðir geggjað tríó á hátíðinni í ár.“

- Auglýsing -
Umslag sólóplötu Daníels – Hönnun: Bergþóra Jónsdóttir

 

„Það er bara svolítið upp og niður,“ sagði Daníel um hvernig væri að vera tónlistarmaður á Íslandi. „Stundum er alltof mikið að gera og stundum allt of lítið að gera. Þetta er heilmikið „ströggl“ eins og sagt er og stundum ekki alltaf borið mikla virðingu fyrir því sem maður gerir og þá helst kannski launalega séð. Fólk biður um lifandi músík og hættir að svara tölvupóstum þegar umræðan um verð kemur upp.“

„Smá hvíld vona ég,“ svaraði Daníel þegar hann var spurður út í framhaldið. „Búið að taka aðeins á að undirbúa tvær útgáfur og allt tilheyrandi. Kennsla að hefjast og einhverjir tónleikar framundan. Mæli með að fylgja Los Bomboneros á Facebook og Instagram og kíkja á tónleika og dansa. Svo verða líka seinna í vetur tónleikar með mínu efni en það verður auglýst síðar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -