Ungur drengur varð fyrir árás í austurborginni þegar þrír einstaklingar veittust að honum og reyndu að ræna hann. Ofbeldismennirnir kröfðu drenginn um skó, skartgripi og fleira. Þeir náðu af honum farsímanum og neituðu svo að skila honum aftur. Drengurinn komst undan á flótta og mátti sjá áverka á andliti hans eftir hnefahögg.
Ökumaður stöðvaður og handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá reyndist hann einnig vera vopnaður hnífi. Hann var látinn laus að blóðsýnatöku lokinni.
Kona var staðin að verki við að reyna að brjótast inn í bifreiðar. Þegar lögreglu bar að garði neitaði konan að segja til nafns og var í mjög annarlegu ástandi. Hún var handtekin og læst inni í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hana.
Lögreglan var kölluð út vegna ungmenna sem voru að reykja kannabis á skólalóð. Við athugun lögreglu reyndist fólkið allt vera komið yfir 18 ára aldur. Þau viðurkenndu neyslu en voru búin með fíkniefnin þegar lögreglan kom.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Annar reyndist vera án ökuréttinda. Báðir voru látnir lausir eftir að tekið hafði verið úr þeim blóðsýni.