Ofurölvi gestur skemmtistaðarins Strikið-Casinó í Reykjanesbæ höfuðkúpubrotnaði er hann féll úr höndum dyravarðar og fram af sviði staðarins.
Aðgerðir dyravarða skemmtistaðar í októberbyrjun enduðu með ósköpum þegar öfurölvi gestur á þrítugsaldri sleit sig lausan úr höndum þeirra og féll fram af sviði staðarins og höfuðkúpubrotnaði. Þá brákaði hann einnig hryggjaliði. Var hann fluttur á Landspítalann í Reykjavík til aðhlynningar en atvikið átti sér stað árið 2000.
DV sagði frá slysinu á sínum tíma á eftirfarandi hátt:
Féll úr höndum dyravarða fram af sviði: Höfuðkúpubrotinn á skemmtistað – klukkan 6 að morgni
Ofurölvi maður á þrítugsaldri sleit sig úr höndum dyravarða skemmtistaðarins Strikið-Casinó í Reykjanesbæ um síðustu helgi og féll fram af sviði staðarins með þeim afleiðingum að hann höfuðkúpubrotnaði og brákaði hryggjarliði. Maðurinn var fluttur á Landspítalann í Reykjavík þar sem hann liggur enn. „Atburðurinn átti sér stað klukkan sex að morgni enda staðir hér opnir fram eftir öllu,“ sagði Jóhannes Jensson, rannsóknarlögreglumaður í Reykjanesbæ. „Maðurinn mun hafa sofið áfengisdauða inni á staðnum þegar dyraverðir komu að og ætluðu að fjarlægja hann. Sleit maðurinn sig þá lausan með þeim afleiðingum að hann féll niður af sviði í tröppur og niður á gólf og höfuðkúpubrotnaði. Fallið er þó ekki nema um 70 sentimetrar,“ sagði Jóhannes Jensson. Hlynur Vigfússon, eigandi skemmtistaðarins, harmar atburðinn: „Þetta var slys. Gesturinn var ofurölvi og afleiðingarnar vægast sagt leiðinlegar. Ég vona að hann nái sér að fullu.
Því miður fann blaðamaður engar upplýsingar um afdrif mannsins sem slasaðist en ef lesendur hafa upplýsingar má alveg endilega senda þær á [email protected]