Sumir vilja ekki vera kallaðir drullusokkar en Bergur og Sebastían vilja það.
Rappsveitin Drullusokkarnir hefur átt góðu gengi að fagna þrátt fyrir utan aldur meðlima sveitarinnar. Þeir eru frændur sem heita Bergur og Sebastían og eru aðeins 15 og 16 ára gamlir. Lögin þeirra Kvennagull og Pabbapeningar hafa vakið athygli fyrir snjalla texta og frumleika en slíkt hefur sárlega vantað í íslenskt rapp undanfarin ár. Hljómsveitin gaf út lagið VÖKUNÓTT fyrr í dag en með þeim í laginu er DAVITH.
„Við höfum verið alveg óaðskiljanlegir síðan í barnæsku vegna þess að við erum frændur og höfum verið bestu vinir alla tíð,” sögðu þeir um hvernig þeir kynntust.
„Við vorum kallaðir Drullusokkarnir af fjölskyldumeðlimum áður,“ sögðu þeir um hvernig Drullusokkarnir urðu til. „Bergur hefur verið í tónlistinni frá barnæsku þar sem hann hefur æft á gítar, trommur, klarínett og ýmislegt annað en ekkert heillaði hann eins og píanóið, sem hann hefur núna æft í mörg ár. Bergur byrjaði að búa til takta og ýmis lög í hálfgerðu gríni fyrir löngu heima hjá sér í Bandaríkjunum,“ en svo flutti Bergur til Íslands. Á sama tíma var Sebastían búinn að semja lög með vinum sínum og vissi að frændi sinn var að gera tónlist svo þeir ákváðu í framhaldinu að byrja vinna saman.
„Kanye West, Birnir, Gísli Pálmi, Travis Scott, Kendrick Lamar, Herra Hnetusmjör, Elton John, Ásgeir Trausti, Coldplay, David Bowie, Queen, The Weeknd, Fleetwood Mac,“ eru nöfnin sem koma upp í huga piltana þegar þeir eru spurðir á hvað þeir hlusta. „Við hlustum líka á „latin“ tónlist. Við hlustum á mjög fjölbreytta tónlist og höfum smekk fyrir öllu en þetta eru helstu tónlistarmennirnir sem við hlustum á, og tökum innblástur frá.“
„Bergur hlustar rosalega mikið á Kanye West vegna þess að hann er svo fjölbreyttur og horfir upp til hans sem „producer“ og listamaður. Bergur var alinn upp við tónlist Queen, David Bowie og öðrum á listanum, en kynnti sér tónlist Elton John með því að kenna sjálfum sér á píanó. Bergur bjó í Bandaríkjunum í 6 ár og er með innblástur frá bandarísku rappi og tónlistarmenningu þaðan,“ en sjálfur sækir Sebastían meira í íslenskt rapp og voru Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauti hans fyrstu kynni á íslensku rappi. Hann tekur þó fram að hann hlusti á mjög fjölbreytta tónlist en skilar sér alltaf aftur í íslenska rappið.
Piltarnir sögðu að það sé engin ein leið til að búa til lag. Lagið Pabbapeningar var gert út frá hugmynd að tónlistarmyndbandi meðan hugmyndin að laginu Kvennagull kom frá föður Bergs
„Við höfum verið að plana að gefa út plötu síðan áður en að við gáfum út Pabbapeningar og erum við með nokkur lög í vinnslu fyrir hana. Bergur er samt sem áður að fara í skiptinám til Japans þannig plata er ekki áætluð á næstunni. Við viljum heldur ekki gefa út plötu fyrir fá eyru og viljum byggja upp stóran hlustendahóp áður en það gerist. Við stefnum á toppinn,“ sögðu þeir og ætla ekki stoppa fyrr en þangað er komið.