Lögreglan var kölluð út vegna manns sem ofbauð fólki með því að ástunda sjálfsfróun á almannafæri. Maðurinn stundaði þessa athöfn framan við húsnæði en tekið er fram að losti hans hafi ekki beinst gegn neinum sérstökum. Lögreglan greip inn í atburðarásina og ræddi við manninn. Hann virtist vera undir áhrifum fíkniefna og er nú til rannsóknar fyrir brot gegn blygðunarsemi.
Annar einstaklingur lognaðist dauðadrukkinn út af við fyrirtæki í Reykjavík. Lögreglu tókst að koma honum til meðvitundar. Aðspurður neitaði hann að gefa lögreglu upp kennitölu. Hann var með meint þýfi, vopn og fíkniefni á sér. Sá drukkni var handtekinn og vistaður í fangaklefa fyrir rannsókn málsins.
Tilkynnt um mögulegan eld í vélarbúnaði í fyrirtæki í Reykjavík þar sem lítilsháttar reykur kom úr búnaðinum. Lögregla og slökkvilið komu á vettvang þar sem slökkt var í því litla sem var með handslökkvitæki.
Tilkynnt um hnupl í matvöruverslun þar sem gerandi væri enn á staðnum. Lögregla mætti á staðinn og tók framburð af meintum búðarþjófi.
Talsvert uppnám varð á slysadeild Landspítalans vegna aðila sem var orðinn æstur. Lögregla var kölluð til en var þó snúið frá þar sem heilbrigðisstarfsfólki hafði tekist að róa hann niður.
Tilkynnt um hnupl í matvöruverslun. Aðilinn var undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða lyfja og var ósamvinnuþýður við lögreglu. Vistaður í klefa fyrir rannsókn málsins.
Ökumaður stöðvaður við umferðareftirlit þar sem hann reyndist vera án ökuréttinda. Akstur stöðvaður og ökumaður sviptur bifreið sinni. Hann á yfir höfði sér sekt.
Tilkynnt um grunsamlegan aðila vera að kíkja í og reyna að opna bifreiðar. Sá var horfinn á braut áður en lögregla kom á vettvang og fannst ekki.
Tilkynnt um árekstur þar sem gerandi stakk af á vettvangi. Lögregla mætti á vettvang og ræddi við vitni. Málið í rannsókn.
Tilkynnt um ölvaðan ökumann. Lögregla hafði uppi á viðkomandi sem reyndist vera allsgáður.