Ölvaðir ökumenn í vanda af ýmsum toga voru helstu verkefni lögreglunnar í gærkvöld og nótt. Ein af fáum undantekningin frá því þema var einstaklingur sem ónáðaði fólk i miðborginni með háttalagi sem var til ama. Lögreglan hafði hendur í hári hans og veitti manninum tiltal. Eftir samtal við lögreglu lofaði hann að láta af fíflaganginum.
Tilkynning barst um ölvaðan ökumann í miðborginni. Sá fannst ekki þrátt fyrir leit. Sama var uppi á teningnum í austurborginni þar sem tilkynnt var um ökumann í vímu. Hann var horfinn sporlaust þegar lögreglan kom. Leit bar ekki árangur.
Drukkinn ökumaður rafhlaupahjóls féll og slasaðist. Ökumaður var handtekinn í miðborginni vegna ölvunaraksturs. Dregið var úr honum blóð í þágu rannsóknar. Í Hafnarfirði var annar ökumaður á ferð í svipuðu ástandi. Ökumaður var stöðvaður við akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Hann var handtekinn og fluttur til blóðsýnatöku. Um svipað leyti var framið innbrot í bænum. Það er til rannsóknar.
Tilkynnt var um umferðaróhapp á svæði Kópavogslögreglu, skömmu eftir miðnætti. Ökumaður hafði ekið út af veginum og skemmt ökutæki sitt. Maðurinn reyndist vera dauðadrukkinn. Hann var færður á slysadeild, þar sem blóðsýni var tekið í þágu rannsóknar.
Lögreglu barst tilkynning um ölvaðan ökumann um kvöldmatarleytið. Þetta reynidst vera á misskilningi byggt því hann reyndist vera að kljást við heilsukvilla. Lögreglumenn hjálpuðu honum heim.