Það er útlit fyrir að bakstursæði hafi gripið landsmenn þegar samkomubann tók gildi 13. mars. Sölutölur matvöruverslana gefa vísbendingu um þetta. Í svari Krónunnar við fyrirspurn Mannlífs kemur í ljós að sala á bakstursvörum hefur aukist um 123% í apríl ef miðað er við sama tímabil í fyrra. Sala á bakstursvörum jókst þá um 50% í mars ef miðað er við marsmánuð í fyrra. Helstu vörur innan þess flokks eru suðusúkkulaði, hveiti, ger, lyftiduft og kökudropar.
Í svari við fyrirspurn Mannlífs til Krónunnar um hvaða áhrif samkomubannið hefur haft á innkaup landsmanna segir að um leið og samkomubannið var fyrst kynnt jókst salan á frystivörum um 55%, þá helst á frosnu fuglakjöti og fisk, og sala á niðursuðuvörum jukust um 150% á milli mánaða. Efst á þeim lista eru fiskbúðingur í dós, bakaðar baunir, tómatar í dós og túnfiskur í dós.
Þá fóru húðvörur að seljast betur ef miðað er við febrúarmánuð, þá einna helst handsápa (230%) og spritt.
„Þegar ástandið hefur náð ákveðnu jafnvægi höfum við merkt að salan hefur færst til úr vörum sem hafa langan líftíma yfir í vörur sem skapa stemmningu inni á heimilinu,“ segir í svari við fyrirspurn Mannlífs.
Kerti, servéttur og blóm rjúka út. Og sömuleiðis allt sem snýr að pizzabakstri. „Sala á rifnum osti, pepperoni og skinku hefur aukist mikið.“