Landsmenn sitja greinilega ekki auðum höndum heima í samkomubanni heldur nýta margir tímann í að dytta að heimilinu, breyta og bæta.
Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, sagði í morgun í samtali við morgunútvarp Rásar 1 að útbreiðsla COVID-19 hafi haft margvísleg áhrif, meðal annars þau að fólk er að breyta og bæta heima hjá sér í auknum mæli.
„Fólk hefur verið meira heima við og verið töluvert í framkvæmdum,“ sagði Árni. Hann segir „sprengingu“ hafa orðið í sölu á málningu og gólfefni, t.d. flísum og greinilegt að margt fólk nýti tímann í að taka heimilið í gegn. „Fólk situr greinilega ekki auðum höndum heima,“ sagði Árni.
Hann segir mikla aukningu hafa orðið í vefverslun Húsasmiðjunnar, salan hefur þrefaldast á milli ára ef miðað er við það sem af er aprílmánaðar að sögn Árna. Hann segir „vorhug“ kominn í fólk og að pallaefni rjúki út. Sala á pallaefni er 50% meiri ef miðað er við sama tíma í fyrra.