Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir nýja flugmenn hafa sótt um störf áður.
Miklar sviptingar á íslenskum flugmarkaði áttu sér stað í gær en þá sögðu 14 flugmenn Play upp störfum til þess að geta hafið störf hjá Icelandair. Forstjóri Icelandair heldur því fram að allir flugmennirnir hafi sótt um störf fyrir löngu síðan og fengið að vera á biðlista eftir nýjum störfum skyldu þau losna.
„Þegar ferlinu lauk síðastliðinn vetur, höfðum samband við þá sem uppfylltu okkar hæfniskröfur og spurðum hvort við mættum hafa samband við þá næst þegar kæmi til ráðninga. Það var fyrst og fremst gert til að þeir þyrftu ekki að hefja umsóknarferli upp á nýtt ef og þegar ráðið yrði í nýjar stöður hjá okkur,“ sagði Bogi Nils um málið í samtali við mbl.is.
„Nú erum við í ráðningarferli á ný og þá var haft samband við þennan sama hóp til að kanna hvort þessi tilteknu flugmenn hefðu áhuga á að koma til starfa núna, sem flestir völdu að gera,“ og verður athyglisvert að sjá hvort þetta hafi teljandi áhrif á Play.