Miklar umferðartafir eru á Reykjanesbraut vegna flutningabifreiðar sem valt skammt frá afleggjaranum að Hvassahrauni. Bíllinn var á leið til Keflavíkur um klukkan 4 í nótt þegar óhappið varð. Með illskiljanlegum hætti valt bíllinn sem var að flytja fisk og þverar hann nú veginn. Brautin er lokuð við Hvassahraun og er bifreiðum beint um hjáleið.
Brautin hefur þegar verið lokuð í tæpar 5 klukkustundir og er viðbúið að lokun verði frameftir morgni á meðan unnið er að því að afferma bílinn og koma farminum í aðra flutningabíla. Löng bílaröð er á hjáleiðinni og víst að fólk þarf að reikna sér góðan tíma til að komast leiðar sinnar.
Ekki er talið að ökumaður flutningabifreiðarinnar hafi slasast við óhappið.