Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.6 C
Reykjavik

98 prósent nemenda á móti sameiningu: „Fólk í valdastöðu fer með framtíð okkar eins og þeim sýnist“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í gær var greint frá því að til stæði að sameina MA og VMA í einn skóla en nemendafélag MA er gríðarlega á móti slíkum áætlunum.

Eins og Mannlíf greindi frá í gær tilkynnti Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, frá áætlun þess að til stæði að sameina Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri í einn skóla. Skólastjórar MA og VMA segja vera jákvæðir fyrir þessari sameiningu. Skólafélagið Huginn í MA sendi frá sér yfirlýsingu í framhaldinu og segir þar að loforð hafa verið brotin og mikill meirihluti nemenda sé á móti sameiningu. Hægt er að lesa yfirlýsinguna hér fyrir neðan.

„Stjórn Skólafélags Hugins í Menntaskólanum á Akureyri er með öllu mótfallin sameiningu MA og VMA. Í skólakerfi af þessari stærðargráðu munu nemendur aldrei upplifa sömu nánd við kennara, stjórnendur, stoðteymi eða samnemendur. Nemendur eiga ekki skilið að vera lítill hlekkur í risastórri hagræðingarkeðju ríkisstjórnar. Menntaskólinn á Akureyri er eitt virtasta menntasetur á landinu og hefur lengi vel verið þekktur sem skóli hefðanna. Með sameiningu af þessum toga er vegið að öllum okkar hefðum. Nemendur sækja í MA fyrir einstakt félagslíf. Skólinn stendur fyrir óteljandi viðburðum sem fylgja MA-ingum út lífið, þar má nefna árshátíðina, menningarferðina, júbilantahátíðina og margt fleira. Það er því deginum ljósara að með sameiningu myndu þessar hefðir eiga undir högg að sækja. Því spyrjum við mennta- og barnamálaráðuneytið hvernig þau geta með hreinni samvisku fleygt út um gluggann öllu því sem gerir skólann okkar einstakan? Er hagræðing í menntakerfinu meira virði í augum ráðuneytisins en menning og saga skóla um allt land? Gefið var út í dag á vef stjórnarráðsins að ákvörðun liggi fyrir um sameiningu skólanna tveggja og nú fari ferli af stað með nemendur til hliðsjónar. Í vor þegar fréttir bárust um fyrirhugaða sameiningu var nemendum lofað, að áður en ákvörðun yrði tekin fengju nemendur að koma sínu á framfæri. Aðgerðir dagsins í dag eru þvert á þau loforð sem mennta- og barnamálaráðuneytið gaf út. Eftir að hafa lagt könnun fyrir nemendur í Menntaskólanum á Akureyri eru 98% þeirra mótfallin sameiningunni. Við munum ekki standa aðgerðarlaus hjá á meðan að fólk í valdastöðu fer með framtíð okkar eins og þeim sýnist.

Við erum framtíðin og við segjum nei.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -