Auður Alfa Ólafsdóttir segir að matur á Íslandi sé dýr sama hvað Finnur Oddsson, forstjóri Haga, heldur fram.
Finnur Oddsson, forstjóri Haga, hélt því fram í gær í viðtali að verð á matvöru á Íslandi væri ekki hátt, sem hlutfall af launum eða útgjalda heimila. Auður Alfa Ólafsdóttir, hjá verðlagseftirliti ASÍ, telur Finnur sé að villa um fyrir fólki.
„Vissulega er matvara lægra hlutfall af útgjöldum hér en í fátækari löndum, sem er bara mjög gott, fólk hefur almennt og að meðaltali meira milli handanna hér, þannig að nauðsynjavara eins og matvara vegur ekki eins þungt í útgjöldum Íslendinga. Það er bara rangt að vera að blanda þessu tvennu saman, útgjöld til ákveðinna flokka vöru eða þjónustu segir ekkert eða voða lítið til um verðlag á viðkomandi vöru, þannig að hann er að blanda frekar óskyldum hugtökum saman,“ sagði Auður Alfa í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
„Við erum með þriðja hæsta matvöruverð í heiminum. Þau lönd sem eru með hærra verð á matvöru en við eru Noregur og Sviss, þar munar samt ekki miklu, það Norðurland sem kemur á eftir okkur er Danmörk og þar munar 20%.“