Búið að laga þau skemmdarverk sem unnin voru á tröppum á Akureyri.
Eins og Mannlíf greindi frá í lok seinasta mánaðar voru regnbogatröppur sem liggja að ungmennhúsinu Rósenborg á Akureyri skemmdar. Virðist vera að um hatursglæp hafi verið að ræða.
„Það er náttúrlega bara mjög sorglegt að fólk geti ekki leyft þessum regnbogalitum og fánum að vera í friði. Ég sé ekki hvernig það skaðar nokkurn einasta mann þó það séu regnbogalitir einhvers staðar,“ sagði Linda Björk Pálsdóttir, forvarna- og félagsmálaráðgjafi, í samtali við RÚV um málið þegar það kom upp.
Nú hafa tröppurnar verið lagaðar og endurmálaðar af ungmennum á Akureyri. „Við vonum bara að þetta verði látið í friði. Að fólk krassi bara á blað ef það þarf eitthvað að krassa,“ sagði Linda.
„Mjög margir ferðamenn af skemmtiferðaskipum ganga hér framhjá og á hverjum degi stoppar fjöldi fólks hér til að skoða og taka myndir,“ sagði Linda við Akureyri.net.