Árvakur, útgafufélag Morgunblaðsins, lagði háa fjármuni í að tryggja sér einokun á dagblaðamarkaði. Þetta gerði fyrirtækið með því að kaupa prentvél Ísafoldarprensmiðju sem var í eigu þrotabús Torgs, eiganda Fréttablaðsins. Árvakur, sem tapaði 243 milljónum króna á síðasta ári, er þannig kominn með fullkomna einokun á þessum markaði. Félagið fékk einnig fjölmiðlastyrk upp á 64 milljónir króna af almannafé til að halda úti rekstri sínum. Fyrirtækið hefur notið stuðnings aðaleiganda síns, Guðbjargar Matthíasdóttur, auðkonu frá Vestmannaeyjum og aðaleiganda Ísfélagsins. Mannlíf greindi á sínum tíma frá átökunum um prentvélina og þeim vilja Árvakursmanna að komast yfir tækið. Staðan núna að sú að búið er að rífa af prentvélinni allar rafmagnstengingar og nánast að eyðileggja hana. Prentvélin bíður þess eins að fara í brotajárn. Eigandi hússins þar sem prentsmiðjan hefur þjónað sínu hlutverki er Reginn.
Heimildin fjallaði um prentsmiðjumálið fyrir skömmu og ræddi við Guðbrand Magnússon prentsmiðjustjóra sem neitaði að gefa upp kaupverðið á prentsmiðjunni. Prenstmiðja Morgunblaðsins prentar Heimildina og Bændablaðið auk svæðisbundinna blaða. Auk þess að fara með einokun á prentun dagblaða er Árvakur ráðandi á dreifingu þar sem það ræður nú eitt Póstdreifingu sem félagið átti áður Með Torgi, útgáfu Fréttablaðsins.
Óskar Sigurðsson, lögmaður hjá Lex, er skiptastjóri og annaðist söluna á prentvélinni til Árvakurs. Auk Árvakurs þá bauð Kjartan Kjartansson, prentsmiðjustjóri Ísafoldarprentsmiðju, í prentvélina en fékk ekki að kaupa.
Samkvæmt heimildum Mannlífs hefur Samkeppniseftirlitið þessi viðskipti og tilgang þeirra til skoðunar. Hermt er að skiptastjóra og Árvakri hafi verið skilt að fá leyfi fyrir því hjá eftirlitinu að kaupin ætti sér stað en slíkt hafi ekki verið gert. Samkeppniseftirlitið er með fyrirspurn frá Mannlífi um málið.
Ekki hefur náðst í Óskar Sigurðsson vegna þessa máls.