Gestur veitingastaðar neitaði að greiða fyrir veitta þjónustu í gærkvöldi og endaði það með því að kalla þurfti til lögreglu. Maðurinn hafði einnig neitað að yfirgefa staðinn en lögregla greip inn í og leysti málið. Í Hlíðunum kom lögregla drukknum manni til aðstoðar en sá ráfaði stefnulaus um garð í hverfinu. Í miðbænum tók maður upp á því að ganga á milli borða á veitingastað og gæða sér á veitingum annarra. Starfsfólk hringdi á lögreglu en maðurinn svangi náði að forða sér áður en lögregla kom.
Í Fossvogi braut óvelkominn aðili sér leið inn í íbúðarhús og gekk svo út. Maðurinn skar sig illa þar sem hann hafði brotið rúðu og skriðið í gegnum hana. Var hann því fluttur á slysadeild. Það var lítið um útköll í miðbænum í gær en lögregla var þó látin vita af árásagjarnri konu á skemmtistað. Þá hafði lögregla afskipti af ungmennum sem reyktu kannabis í bílakjallara og ógnandi manni á hóteli sem reyndi að ræna bjór úr ísskáp starfsmanna. Að lokum hafði lögregla afskipti af manneskju sem hafði tekið með sér ungabarn á skemmtistað í Grafarvogi. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvernig því máli lauk.