Það eru ekki á hverjum degi sem bein úr hauskúpum finnast í íslenskum húsum, hvað þá Ráðherrabústaðnum.
Undanfarnar vikur hafa staðið yfir endurbætur á Ráðherrabústaðnum en fyrir nokkrum dögum fundust þar bein sem reyndust vera brot úr höfuðkúbu.
„Það var verið að fjarlægja gólffjalir og gamla einangrun uppi í risi, þegar iðnaðarmennirnir fundu tvö brot úr höfuðkúpu af manneskju undir gólffjölunum og brá óneitanlega nokkuð við,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í viðtali við mbl.is.
„Þetta er hið dularfyllsta mál og við vitum ekki af hverjum höfuðkúpan er, síðan hvenær hún er eða hvenær henni var komið fyrir þarna undir gólffjölunum. Það er talið að beinin séu gömul og jafnvel að þau hafi verið gömul þegar þeim var komið fyrir, en um það vitum við lítið fyrir víst, enn sem komið er.“