Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er kominn í leyfi frá störfum en Vísir greindi frá málinu í morgun. Tveir aðrir stjórnendur innan embættisins hafa verið sendir í leyfi á árinu en Margeir stjórnaði miðlægri rannsóknardeild.
Þá segir í frétt Vísis að sálfræði- og ráðgjafastofa hafi verið fengin til þess að taka út stjórnarhætti Margeirs sem var í kjölfarið sendur í leyfi. Deild Margeirs sér meðal annars um rannsóknir sem snúa að ofbeldisbrotum, kynferðisbrotum, fíkniefnabrotum, mansals og vændis. Líkt og fyrr segir er Margeir ekki sá fyrsti sem hefur verið sendur í leyfi innan embættisins en Hulda Elsa Björgvinsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri og sviðsstjóri ákærusviðs, lét af störfum í apríl síðastliðnum eftir að hafa farið í leyfi í desember.