Föstudagur 22. nóvember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Hafsteinn rifjar upp Krossnesslysið: „Mjög erfitt að koma heim úr þessari ferð, án þriggja manna“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hafnarstjórinn og fyrrum skipstjórinn Hafsteinn Garðarsson er nýjast viðmælandi Reynis Traustason í þætti Sjóarans.

Hafsteinn var skipstjóri þegar Krossnesið sökk. Þrír menn létust í háskanum en það markaði Hafstein fyrir lífstíð en Reynir var stýrimaður á Sléttanesinu sem var fyrsta skip á vettvang.

Reynir byrjar viðtalið á að segja Hafsteini að það sé honum mikill heiður að fá hann í settið því að þeir hafi átt samleið á Vestfjarðamiðum á sínum tíma þegar hinn hræðilegi atburður varð þegar Krossnesið sökk en Hafsteinn var þá skipstjóri skipsins, 31 árs að aldri. Reynir var stýrimaður á fyrsta skipinu sem mætti á slysstað.

„Þetta var mikið áfall og eitthvað sem mann óraði fyrir að gæti skeð,“ svaraði Hafsteinn. „Þetta var mjög erfitt og erfitt að koma heim úr þessari ferð, án þriggja manna.“

Reynir rifjar upp að þeir á Sléttanesinu hafi verið að kasta þegar það kemur neyðarkall frá Krossnesinu. „Stýrimaðurinn þinn kallar út og segir „Við erum að sökkva!“.“

„Já, ég var í koju,“ rifjar Hafsteinn upp og heldur áfram. „Þetta var rétt fyrir átta, sunnudagsmorgun þann 23. febrúar. Og ég rumska þegar þeir eru að byrja að hífa. Ég rumska og sný mér á hliðina eins og maður gerði alltaf en svo finn ég að það er eitthvað að. Það er eitthvað skrítið. Hreyfingar.“ Segir Hafsteinn að hann hafi svo byrjað að heyra köll og að það hafi einn úr áhöfninni komið í dyrnar hjá honum. „Þannig að ég rík fram, á buxum og bol. Og sé að það er að vera kominn sjór upp undir gang. Og hallinn á skipinu er orðinn töluverður.“

- Auglýsing -

Reynir: „Og þetta gerist bara á örskotsstundu.“

Hafsteinn: „Já, á örskotsstundu. Bara um leið og hann finnur að það er eitthvað að, reynir hann að slaka út vír og keyra bátinn upp en það skeður bara ekki neitt.“

Reynir: „Þetta gerist það snöggt að ég heyri náttúrulega neyðarkallið frá stýrimanninum og ég kalla í honum og segi honum að gefa upp stað, ég sá hann náttúrulega á radarnum. Ég held að það hafi verið 0,7 í ykkur þegar ég byrja að hífa aftur en svo sé ég hann bara dofna út. Maður horfir bara á þetta gerast á radarnum, hann kom aldrei aftur inn til að segja hvar hann væri.“

- Auglýsing -

Hafsteinn: „Nei, hann fór náttúrulega í það að ræsa alla út og útdeila göllum. Flotgöllunum. Þegar svona gerist verður eiginlega hver að hugsa um sjálfan sig. En þeir gerðu þetta svo vel, alveg hárrétt allt saman. Og þegar ég kem fram á ganginn þá kemur einn á eftir mér, vélstjórinn. Og annar vélstjórinn er í stiganum og er á leiðinni upp en stiginn er orðinn mjög brattur. Þannig að ég set bara hausinn á mér undir rassinum á honum og hjálpa honum upp. Hann fær galla og fer út. Og ég segi bara um leið og ég kem upp „Eru allir komnir, hefurðu séð alla?“. Og þá sagði hann: „Nei, það vantar einn, hann er niðri“. Þá ætlaði hinn að snúa við, sem kom upp á eftir mér og ég segi bara við hann „Nei. Nú verður hver og einn að hugsa um sjálfan sig og fara út“. Þetta voru sennilega erfiðustu orð sem ég hef sagt.“

Þegar upp var komið náði Hafsteinn að komast í buxurnar á flotgallanum en lenti þá í basli. „Við lentum í helvítis basli. Plastið sem var utan á gallana, það var svo þykkt. Og í sjóprófunum benti ég á það og það var öllu breytt eftir það. Það var varla að maður næði að taka utan af þessu með því að setja tennurnar í þetta og hendurnar því þetta var bara þykkt gluggaplast.“ Hafsteinn sagði Reyni að áhöfnin hefði verið vel æfð og þarna nýkomin af æfingu hjá Stýrimannaskólanum og það hafi hjálpað. „Um leið og við tveir [stýrimaðurinn og hann], förum út úr brúargluggan þá dettur hann bara á hliðina og við lendum á hliðina á stýrishúsinu. Og stökkvum þaðan í sjóinn.“

Þegar þarna var komið við sögu voru sjö áhafnarmeðlimir Krossnessins komnir í björgunarbát en fimm var saknað. „En þegar við sáum hinn bátinn og að það væru ummerki í honum, þá var það dálítið mikill léttir. Þá vorum við bara alveg klárir á því að hinir væru þar um borð.“

Reynir: „Sem var nú aldeilis ekki.“

Hafsteinn: „Nei, þar var bara einn maður um borð.“

Sem sagt, þarna voru átta menn orðnir hólpnir en fjögurra saknað. Reynir lýsti því fyrir Hafsteini að vélstjórinn á Sléttanesinu hefði verið kominn upp í brú til hans og beðið Reyni að snúa við því hann hefði séð tvo galla í sjónum. Í öðrum gallanum var maður en hinn var tómur. Maðurinn í gallanum var faðir Hafsteins, Garðar en hann hafði ekki náð að renna gallanum alveg upp.

Reynir: „Hann hafði verið nálægt því að fara niður með skipinu, hann flæktist í netadræsum.“

Hafsteinn: „En losnaði þegar hann var kominn aðeins niður, sagði hann mér. En hann var fótbrotinn. Báturinn sem við komumst í, hafði rúllað, vegna hallans, inn á dekkið og lenti á honum. Og kubbaði í sundur á honum fótinn.“

Reynir lýsti því hvernig pabbi Hafsteins hefði litið út, fljótandi innan um dót úr bátnum í opnum galla. Hann hafi verið náhvítur og ekki að sjá að hann væri með lífsmarki. En svo lyfti hann höndinni aðeins og þá vissi Reynir að hann væri á lífi en það var mínútuspursmál, hvort hann hefði það af. „Og merkilegt að hann skuli hafa þetta af, nýkominn úr hjartaaðgerð.“

Viðtalið má sjá í heild sinni hér á efnisveitu Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -