Sjokkerandi myndskeið úr öryggismyndavél sýnir aftöku áttræðs manns í Bronx-hverfinu í New York. Maður á reiðhjóli, klæddur eins og ninja, skaut manninn í höfuðið fyrir framan eiginkonu hans. Og hjólaði svo í burtu.
The New York Post segir frá því að Marcelino Valerio og eiginkona hans hafi verið að koma heim úr 16 ára afmælisveislu og hafi verið komin út úr bíl sem skutlaði þeim heim er hinn aldraði maður var skotinn til bana fyrir framan heimili sitt, um klukk 01:10 eftir miðnætti. Hið hryllilega morð náðist á öryggismyndavél.
Morðingi Valerio var klæddur í svartan klæðnað frá toppi til táar og var með svarta skíðagrímu. Hjólaði maðurinn upp að Valerio og skaut hann tvisvar sinnum, annað skotið hæfði hann í höfuðið.
Á myndskeiðinu sem náðist af verknaðinum, sést eiginkona Valerio í algjöru sjokki en tvær konur í miklu uppnámi drífa sig út úr bílnum, sem skutlað hafði gömlu hjónunum heim og biðla til fólks í kring að sækja hjálp.
Nokkrum augnablikum áður sést skotmaðurinn í myndskeiðinu, hjóla framhjá byggingunni úr annarri átt, augljóslega að bíða eftir að Valerio komi úr bílnum. Hann snýr svo við og hjólar til baka þegar Valerio kemur út úr bílnum. Eftir morðið hjólaði maðurinn á brott og hefur síðan verið leitað.
Lögreglan hefur ekki enn gefið upp tilefni hryllingsins sem gömlu hjónin upplifðu eftir að hafa sótt ánægjulega veislu í New Rochelle í Westchester-sýslu, samkvæmt heimildarmanni innan lögreglunnar.
Húsvörður byggingarinnar þar sem hjónin bjuggu, lýsir Valerio sem hörkuduglegum og rólegum manni.
„Hann var ekki mikið úti, hann var heimakær,“ sagði húsvörðurinn, Rafel De Leon, sem sagði fjölmiðlum að þau hjónin ættu dóttur. „Hann var aldrei til vandræða. Hann var frábær manneskja,“ bætti De Leon við.
Valerio hafði aðeins einu sinni komist í kast við lögin en það var árið 1993 er hann keyrði undir áhrifum áfengis.