Siglfirðingum var sumum ekki svefnsamt í nótt þegar ofsaveður gekk yfir staðinn. „Mikill vindur og gríðalegir vindstrengir hafa verið á Siglufirði í gær og nótt og viðbúið að svo verði áfram, fram eftir degi og til kvölds,“ segir í dagbók lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Krafturinn í vindhviðunum var með slíkum ósköpum að hús við Aðalgötu sprakk bókstaflega í gærkvöld. Í einni vindhviðunni tókst þak hússins að hluta á loft með þeim afleiðingum að brakið dreifðist um stórt svæði. Tjón varð á nærliggjandi húsum og mannvirkjum og þurfti meðal annars að rýma eitt hús. Ekki urðu slys á fólki þegar ósköpin gengu yfir. Umferð um Aðalgötu á Siglufirði, frá Vetrarbraut, var lokað fyrir umferð þar til búið er að tryggja svæðið. Einnig er lokað fyrir umferð um bifreiðastæði við skrifstofu Ramma á hafnarsvæðinu. Opnað verður aftur fyrir umferð um leið og svæðið verður tryggt, að sögn lögreglu.
Öll tiltæk björgunartæki björgunarsveita á svæðinu, slökkviliðs og lögreglu hafa verið notuð við lokanir í nótt. Þá hafa björgunarsveitarmenn verið á ferðinni um bæinn til að lágmarka foktjón á öðrum stöðum. Búist er við að veður gangi niður með morgninum.