Lögreglan hefur lokið rannsókn á máli Alberts Guðmundssonar knattspyrnumanns og er það nú komið í hendur ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt frétt Vísis staðfestir Bylgja Hrönn Baldursdóttir, lögreglufulltrúi hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að rannsókn á meintu kynferðisbrotamáli Alberts Guðmundssonar, sé lokið og komið á borð ákærusviðs.
Albert var kærður fyrir kynferðisbrot í ágúst síðastliðnum. Leikur hann með Genoa á Ítalíu en fær ekki að leika með landsliði Íslands á meðan á málinu stendur.
Hefur Albert áður sagst saklaus í málinu í stuttri yfirlýsingu 24. ágúst. „Ég er saklaus af þeim ásökunum sem komið hafa fram. Ég mun ekki tjá mig frekar á meðan málið er til rannsóknar.“