Ari Eldjárn, grínisti, fór yfir lífið og tilveruna.
Hinn landsþekkti grínisti Ari Eldjárn var gestur í þættinum Félagsheimilið á Rás 2 og ræddi þar ýmis málefni. Snerti hann þá meðal annars á þeim vinnum sem hann vann áður en hann gerði grínið að fullu starfi.
„Ég var flugþjónn tvö sumur hjá Icelandair og svo var ég kominn á auglýsingastofu. Ég byrjaði með uppistand í fyrsta skipti 2009 og svo var það mjög fljótt, hálfu ári seinna, sem það var orðið að aðalvinnunni. Ég var 27 að verða 28. Ég var alveg gamall. Búinn að upplifa hluti og hafði smá lífsreynslu,“ en sagði Ari að kunni þó að meta 9 til 5 vinnur. „Það er líka gott að vera í venjulegri vinnu og þurfa ekki alltaf að ákveða hver stefnan er. Ég er minn eigin herra en ég er líka minn eigin starfsmaður og þetta getur verið skrítið stundum.“
Ari sagði að það væri lykilatriði að halda í gleðina. „Þetta er mjög skemmtilegt og tvískipt líf. Maður er einn, einn, einn og svo er maður alls ekki einn heldur fullur salur. Þetta er vinna og maður þarf að halda sér ferskum og hressum og brenna ekki út. Það er mín versta martröð að verða óhamingjusamur og gamall uppistandari sem hættir samt ekki.“
„Það er yfirleitt fólkið sem er í kringum mann hverju sinni sem þarf að hlusta á mann þegar maður er að semja,“ sagði Ari um hvort hann fengi einhverskonar hjálp við skrifin. „Ég er ekki alltaf að semja og þá er ég ekkert mikið að tala um grín, en ef ég er komin í ham og er að semja þá nota ég hvern sem er í kringum mig og spyr: Hvað finnst þér?“