Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.7 C
Reykjavik

Þegar íslenskir námsmenn tóku sendiráð Íslands í Stokkhólmi: „Eina lausnin er sósíalistísk bylting“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 1970 ruddust 11 vaskir íslenskir námsmenn inn í sendiráðs Íslands í Stokkhólmi og tóku yfir bygginguna. Var meiningin að hefja sósíalístíska byltingu.

Sjötti áratugurinn hefur stundum verið kallaður byltingaáratugurinn en mikil ólga var í samfélögum víðs vegar um heim. Má í því samhengi nefna Kúbudeiluna, kalda stríðið, uppgangur kommúnista, morðin á John F. og Robert Kennedy, Malcolm X, Martin Luther King Jr. svo eitthvað sé nefnt.

Stúdentar voru áberandi í hverskyns mótmælagöngum og var oft ansi mikill hiti í þeim, eins og gengur og gerist þegar fólk er orðið þreytt á óbreyttu ástandi í samfélögum þar sem hinir sem minna mega sín, mega eiga sig.

Enn eimdi af byltingarandanum í upphafi næsta áratugar en þann 20. apríl árið 1970 ruddust ellefu stúdentar inn í íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og reka starfsfólk þess út. Í kjölfarið drógu þeir rauða sósíalistafána að húni og hengdu aðra slíka í gluggana. Yfirlýstur tilgangur yfirtökunnar var meðal annars sá að mótmæla slæmum kjörum íslenskra námsmanna á Íslandi sem og erlendis. Þá var þjóðfélagið á Íslandi einnig fordæmt og það sagt vera stjórnað af eignastéttinni. Þá vildu þeir að Ísland gengi úr Atlanthafsbandalaginu og hætti að styðja auðvaldsstefnu Bandaríkjanna.

Stúdentarnir byltingasinnuðu.
Ljósmynd: Åke Malmström

Aðeins tveimur klukkustundum síðar réðust 20 lögregluþjónar inn í sendiráðið og báru stúdentana út en þeir streittust ekki á móti. Voru eftirmálarnir af málinu engir.

Einn byltingasinnanna fylgt út.
Ljósmynd: John Kjellström

Eins og flestir átta sig á hefur lítið sem ekkert breyst frá þessari stuttu byltingu í Stokkhólmi, enn er Íslandi stjórnað af eignastéttinni og stuðningur við Nató hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en einmitt núna.

- Auglýsing -
Fjölmennt lögreglulið fylgdi stúdentunum út úr sendiráðinu.
Ljósmynd: Åke Malmström

Hér má lesa greinagóða frétt Tímans um málið sem skrifað var daginn eftir yfirtökuna:

Stúdentarnir í Stokkhólmi: Taka sendiráðsins upphaf sósialistískrar byltingar!

Ellefu íslenzkir námsmenn í Gautaborg og Uppsölum héldu inn í íslenzka sendiráðið í Stokkhólmi í morgun, ráku starfsliðið út og héldu byggingunni í tvær klukkustundir, en þá réðist lögreglan til inngöngu í húsið og flutti stúdentana á lögreglustöð í Stokkhólmi. Námsmennirnir sendu frá sér greinargerð, þar sem segir að tilgangurinn með töku sendiráðsins sé „að vekja athygli á því ófremdarástandi, sem ríki á sviði íslenzkra menntamála og þá um leið aðstöðu námsmanna heima og erlendis“, en jafnframt að hvetja til „sósíalistískrar byltingar á Íslandi.

Stúdentarnir 11 gengu inn í sendiráðið kl. 11 skv. sœnskum tíma eða ki. 10 að ísl. tíma. Engir þessara stúdenta stundar nám í Stokkhólmi, átta þeirra komu frá Gautaborg <xg þrír frá Uppsölum. Sögðust þeir vera komnir til að leggja sendiráðið undir sig til að undirstrika kröfur sínar um betri námskjör, betri námslán og námsiaun. Báðu þeir starfsfólk  sendiráðsins að ganga út. Haraldur Kröyer, ambassador, var staddur í Helsingfors en þar er Emil Jónsson utanríkisráðherra einnig á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda. Hannes Hafstein, sendiráðsritari, varð fyrir svörum og neitaði hann að ganga út og gerðu stúdentarnir sér lítið fyrir og báru hann út úr byggingunni. Áslaug Skúladóttir vinnur einnig í sendiráðinu og varð hún við beiðni stúdentanna og gekk út.

Vel skipulagt

Margt bendir til að innrás stúdentanna hafi verið vel skipulögð með nokkrum fyrirvara. Engin vandræði voru fyrir stúdentana að komast inn í bygginguna. Þegar þeir voru búnir að bera sendiráðs ritarann út tóku þeir útidyrnar af hjörum og skemmdu lásinn svo að hvorki var hægt að komast út eða inn í bygginguna. Höfðu stúdentarnir matvæli meðferðis og sögðust þeir ætla að dvelja í sendiráðinu að minnsta kosti í dag. Gerðar voru tilraunir til að ná símasambandi við stúdentana en enginn svaraði í símann. Aftur á móti hringdu þeir til Íslands í morgun og töluðu við Leif Jóelsson á rícrifsbafiu Æskulýðsfylkingarinnar og lásu upp greinargerð sem nánar er sagt frá hér á eftir. Hálfri klukkustund eftir að stúdentarnir hertóku sendiráðið birtust nokkrir þeirra á svölum byggingarinnar og drógu þeir að húni stóran rauðan fána. Einnig blöktu rauðir fánar í gluggum hússins. Margmenni safnaðist saman við sendiráðsbygginguna við Kommendörsgötu og brátt kom einnig 50 manna lögreglulið á vettvang. Sendiráðsfólkið hafði samband við sænska utanríkisráðuneytið og bað þess að stúdentarnir yrðu fjarlægðir úr byggingunni. Áður en sænska lögreglan réðist til inngöngu í húsið var haft samband við Emil Jónsson og íslenska utanríkisráðuneytið, og var gefið samþykki til að sænsk lögregla næði í íslenzka ríkisborgara inn í sendiráðið, en þó án átaka.

Stóð í tvo tíma

Tveim klukkustundum eftir að innrásin var gerð fóru sænskir lögreglumenn, 20 talsins inn í sendiráðið og náðu í stúdentana. Komu lögreglumennirnir út með tvo og tvo af stúdentunum í einu og veittu þeir enga mótspyrnu. Var þeim síðan ekið á lögreglustöð og yfirheyrðir einn og einn í seinn. Stóðu yfirheyrzlurnar yfir í um tvo tíma og var stúdentunum síðan sleppt lausum. Engin skemmdarverk voru unnin í sendiráðinu og ekki var hreyft við skjölum sem þar voru. Eftir að búið var að fjarlægja stúdentana var settur lögregluvörður við sendiráðið og starfsfólkið hóf störf sín á ný. Stúdentarnir neita að hafa skipulagt aðgerðirnar fyrirfram og eins að neinn ákveðinn félagsskapur standi bak við þær. Þeir höfðu meðferðis segulbandstæki og tóku upp á það öll orðaskipti við starfsfólk sendiráðsins og eins kvikmynduðu þeir töku byggingarinnar. Meðan stúdentarnir dvöldu í sendiráðinu bárust þangað tvö skeyti annað frá Æskulýðsfylkingunni, þar sem þeim var óskað til hamingju og baráttukveðjur sendar. Hitt skeytið var frá Félagi róttækra stúdenta í Menntaskóla Reykjavíkur og voru í því skeyti stuðningskveðjur.

Mikið fréttaefni

Fjölmiðlarnir í Svíþjóð gerðu sér mikinn mat úr innrásinni í sendiráðið og birta síðdegisblöðin myndir og frásagnir á forsíðum og mikið var sagt frá atburðinum í útvarpi og sjónvarpi. Eftir að stúdentunum var sleppt úr haldi, þyrptust blaðamenn um þá og höfðu viðtöl við stúdentana. Þegar stúdentarnir ræddu við Hannes Hafstein í morgun sögðu þeir að svipaðar aðgerðir verði gerðar í sendiráðunum í Kaupmannahöfn og Osló. Höfðu þeir á orði að aðgerðirnar í Kaupmannahöfn verði framkvæmdar n. k. laugardag. Stúdentamir munu dvelja í Stokkhólmi fram eftir vikuunni en vilja ekkert um það segja hvort þeir ætli að efna til áframhaldandi aðgerða.

Að vekja athygli á ófremdarástandi

Í greinargerð sinni segja námsmennirnir, að tilgangurinn með töku sendiráðsins sé sá „að vekja athygli á því ófremdarástandi, sem ríkir á sviði íslenzkra menntamála og þá um leið aðstöðu námsmanna heima og erlendis“. Þeir bæta því við, að þeim sé ljóst, að „baráttan fyrir bættri aðstöðu skólafólks er ekki hægt að einangra frá baráttunni fyrir breyttu þjóðfélagskerfi“. Í framhaldi af því gagnrýna þeir harðlega íslenskt þjóðfélag. Segja þeir víðs fjarri, að Íslendingar búi við lýðræði: „Stjórn landsins bæði fyrr og nú er í höndum eignastéttarinnar, sem nærist á striti láglaunastéttanna og byggir forréttindatilveru sína á ömurlegu hlutskipti þeirra. Til þess að eignastéttin geti haldið velli og aukið gróða sinn á kostnað almennings verður að viðhalda úreltum hugmyndum um eignarréttinn og efnahagslega mismunun, hindra að hinar vinnandi stéttir geri sér ljós réttindi sín og aðferðir til að ná þeim.“ Segja námsmennirnir, að „skólakerfið og fjölmiðlarnir eru áhrifa mestu vopn valdastéttarinnar til þessa.“ Fara þeir síðan nokkrum og hörðum orðum um þessa tvo þætti, og segja m. a. um skólakerfið, að það sé „deginum ljósara, að stefnan er sú að menntun eigi að þjóna gróðafíkn gírugrar braskarastéttar. Áhrif eignarstéttarinnar á Íslandi kemur og skýrt fram í utanríkisstefnunni, sem fylgt hefur dyggilega hverri bendingu frá Bandaríkjunum. Áhugamál íslenzku og bandarísku eignastéttarinnar haldast að sjálfsögðu í hendur á vissum sviðum. Þess vegna er íslenzku eignastéttinni hagur í að styðja auðvaldsstefnu Bandaríkjanna og heimsvaldastefnu þá sem af henni þróast“.

„Sósíalisk bylting“

Í lok greinargerðarinnar segir, að þeir telji að „eina lausnin á efnahagslegu og félagslegu ástandi á Íslandi er sósíalistísk bylting. Aðgerð okkar er þáttur okkar í að knýja hana fram og gefa íslenzkri alþýðu fordæmi í baráttunni.

Kröfur okkar eru:

Að Ísland gangi úr NATO umsvifalaust og bandarísku hersetuliði verði vísað úr landi án frekari vafninga.
Að ásælni erlendra auðhringa verði stöðvuð þegar í stað, starfsemi þeirra bönnuð og eignir þeirra þjóðnýttar. Að verkalýðurinn taki við stjórn allra framleiðslutækja og bindi þannig endi á langa og ömurlega sögu íslenskrar eignastéttar.“

Hægt er að lesa meira um málið á heimasíðu SINE.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -