Nýtt starf sem atvinnuvefurinn Alfreð auglýsti í gær hefur vakið athygli enda ekki á hverjum degi sem starf sem þetta er auglýst. Um starf sem kynlífstækjaprófari er að ræða.
Það er vefverslunin losti.is sem auglýsir eftir starfsmanni í umrætt starf. Í auglýsingunni segir að verslunin leiti að „opnum og skemmtilegum einstakling til að prófa kynlífstæki verslunarinnar“. Í auglýsingunni er tekið fram að viðkomandi þurfi að gefa hreinskilið álit á þeim kynlífstækjum sem prófuð eru og að umsagnirnar verði birtar á samfélagsmiðlum fyrirtækisins.
„Kynlífstækjaprófarinn þarf ekki að koma undir nafni en verður að vera opinn fyrir því að prófa fjölbreyttar vörur,“ segir í auglýsingunni. Þar kemur fram að losti.is bjóði upp á breitt vöruúrval sem samanstendur af um 200 tegundum af tækjum.
Þá eru helstu verkefni talin upp í starfslýsingunni og tekið fram að umsækjendur þurfi ekki að vera reynsluboltar á þessu sviði. „Við leitum að starfsmanni sem er óhræddur við að greina opinskátt frá upplifun sinni af hinum ýmsu kynlífstækjum. Ekki er nauðsynlegt að hafa notað kynlífstæki áður.“