Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta leik í rúm tvö ár.
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, spilaði sinn fyrsta leik í rúm tvö ár eftir kæra gegn honum var felld niður. Gylfi skrifaði nýlega undir samning við danska liðið Lyngby en með liðinu leika Íslendingarnir Sævar Atli Magnússon, Kolbeinn Finnsson og Andri Guðjohnsen. Þjálfari liðsins er Freyr Alexandersson. Margir Íslendingar gerðu sér ferð á leikinn og var Gylfa mikið fagnað. Gylfi kom inn af bekknum þegar tæpar 20 mínútur voru eftir en leikurinn endaði 1-1.
„Tilfinningin er mjög góð. Það er frábært að vera kominn aftur á völlinn. Auðvitað er svekkjandi hvernig fór en persónulega er ég mjög sáttur með að vera byrjaður að spila fótbolta aftur,“ sagði Gylfi við DV eftir leik.
„Það er töluverð vinna að baki og töluverð vinna framundan. Þetta voru ákveðin tímamót að koma aftur á völlinn en það er langt í land.“