Lenya Rún Taha Karim segir það hafa brotið á sér hjartað að heyra að ráðstefnugesturinn á vegum Samtakanna 78, sem varð fyrir líkamsárás, hafi reynt að fela regnbogabandið sitt undir jakkanum sínum.
Varaþingmaður Pírata, Lenya Rún Taha Karim, skrifaði Facebook-færslu í dag þar sem hún talar um hatursorðræðu og beitingu laga gegn slíku. „Þeir sem mótmæla hvað harðast beitingu viðurlaga við haturstjáningu gera það undir formerkjum tjáningarfrelsis, en þegar hópur fólks sem hefur þegar átt undir högg að sækja veigrar sér við að vera sýnilegt í samfélaginu og finnur ekki fyrir öryggistilfinningu, er verið að vega að frelsi þessa hóps,“ skrifaði Lenya Rún og spyr í lokin af hverju lögum er ekki beitt gegn hatursglæpum á Íslandi.
Færsluna má lesa í heild sinni hér:
„Í umfjöllun um líkamsárásina sem ráðstefnugestur á vegum Samtakanna 78 varð fyrir, kom fram að maðurinn hafi reynt að fela regnbogabandið sitt undir jakkanum sínum þegar hann tók eftir því að það var verið að fylgjast með sér. Það gjörsamlega braut hjartað mitt. Þeir sem mótmæla hvað harðast beitingu viðurlaga við haturstjáningu gera það undir formerkjum tjáningarfrelsis, en þegar hópur fólks sem hefur þegar átt undir högg að sækja veigrar sér við að vera sýnilegt í samfélaginu og finnur ekki fyrir öryggistilfinningu, er verið að vega að frelsi þessa hóps. Réttur einstaklinga til að njóta grundvallarmannréttinda vegur sannarlega þyngra en réttur fólks að tjá sig á hátt sem vegur að réttindum annarra. Það eru skýr lög sem taka á hatursorðræðu og hatursglæpum – þá haturstjáningu – en þeim er varla beitt í framkvæmd. Hvers vegna?“