Bæjarráð Suðurnesjabæjar er ósátt við að Vinnumálastofnun ætli sér að senda 120 hælisleitendur í bæinn og segja innviðina ekki til staðar til að taka á móti þessum fjölda.
Á bæjarráðsfundi þann 30. ágúst síðastliðinn, ítrekaði bæjarráð Suðurnesjabæjar bókun sína frá því fyrr um sumarið, þar sem lýst var miklum áhyggjum yfir „þessum einhliða áformum ríkisins og lýsir vonbrigðum með að afstaða sveitarfélagsins virðist ekki hafa nein áhrif í því sambandi,“ og átti þá við þau áform Vinnumálastofnunar að senda 120 hælisleitendur í Suðurnesjabæ. Í bókuninni kemur fram að innviðir bæjarins ráði illa við slíkan fjölda, sérstaklega í ljósi þess að bæjarfélagið annast það verkefni að veita forráðalausum börnum sem hingað koma um Keflavíkurflugvöll, skjól og þjónustu, „sem felur í sér mikla áskorun sérstaklega fyrir félagsþjónustu og barnavernd.“
„Sveitarfélagið hefur í raun ekkert vopn í höndunum eða ekkert um þetta að segja,“ sagði Anton Kristinn Antonsson, formaður bæjarráðs, í samtali við Mannlíf. „Vegna þess að þetta er ríkið að semja beint til einkaaðila, sveitarfélagið á ekki húsið.“ Húsið sem hýsa á hælisleitendurna heitir Garðvangur en þar er starfrækt dagdvöl eldri borgara.
„Við höfum bent á að það eru engir innviðir til að taka á móti þessum fjölda,“ sagði Anton og hélt áfram: „Út af því að við erum með gríðarlega stórt og umfangsmikið verkefni í höndunum sem snýr að vegalausum börnum.“ Ástæðan segir Anton vera þá að vegna þess að Flugstöð Leifs Eiríkssonar er á landi Suðurnesjabæjar, falli öll börn sem koma foreldralaus til landsins um flugvöllinn, undir barnavernd bæjarins. „Það er á þeim forsendum sem við erum andvíg þessum áformum Vinnumálastofnunar um að koma með þessa umsækjendur um alþjóðlega vernd, út af því að við höfum ekki inniviði.“
Anton bætti einnig við að í húsnæðinu sem ætlað er að hýsa hælisleitendurna, sé einnig dagdvöl aldraðra til húsa. „Dagdvöl aldraðra er í sama húsi en það er á vegum ríkisins og kostað af því. En við lýstum auðvitað yfir áhyggjum af því líka.“
Hér má sjá bókun bæjarráðsins: