Markaðsherferðin Saman í sókn, sem kynna mun Ísland sem áfangastað, er ein af sjö aðgerðum sem kynntar voru á fyrsta viðbragðsfundi ríkisstjórnarinnar við COVID-19 þann 10. mars. Útboðið hefur nú verið auglýst og er í flýtiferli, en Íslandsstofa leggur auk þess til fé og mannskap.
„Við viljum vera tilbúin til að setja verkefnið af stað með skömmum fyrirvara ef við sjáum merki um að ferðaáhugi sé að glæðast,” segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu við Fréttablaðið.
„Samhliða því sem unnið er að undirbúningi markaðsverkefnisins eru í gangi aðgerðir til skemmri tíma svo sem á samfélagsmiðlum og gagnvart erlendum söluaðilum á ferðum til Íslands.”
Ljóst er að verkefnið verður umtalsvert stærra í sniðum en Inspired by Iceland, sem settar voru í 700 milljónir eftir gosið í Eyjafjallajökli vorið 2010. Ferðabransinn tók vel við sér þá og verður því áhugavert að sjá hverju Saman í sókn mun skila.
Nánar er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag.