Illugi Jökulsson hraunar yfir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fyrir að ætla sér að henda hópi Venesúelabúa úr landi á næstunni.
Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson skrifar harðorða færslu á Facebook í dag þar sem hann skrifar við frétt Heimildarinnar um fjölskyldu frá Venesúela sem reka á úr landi á næstunni en yngsti meðlimur fjölskyldunnar fæddist hér á landi. Rekur Illugi í stuttu máli af hverju ríkisstjórnin hafi byrjaði að bjóða Venesúelabúa velkomin hingað til lands en svo skipt um skoðun. „Svo nú á bara að henda þessum sérstöku boðsgestum ríkisstjórnar Katrínar út á guð og gaddinn,“ skrifar Illugi og bætir við: „Af því einhver nefnd lögfræðinga hjá Útlendingastofnun „metur það svo“ að ástandið í Venesúela sé bara orðið fínt. Svo hypjið ykkur!“
Færsluna má lesa í heild sinni hér:
„Þetta er svo ömurleg ríkisstjórn. Fyrir nokkrum árum lá lífið á að sleikja sig upp við Bandaríkjastjórn sem þá leit á Venesúela sem sinn helsta pólitíska andstæðing. Því var flóttamönnum frá Venesúela boðið sérstaklega til landsins, enda var ástandið í landinu vissulega hörmulegt. Nú nennir Bandaríkjastjórn ekki lengur að hugsa um Venesúela og þá missa íslensk stjórnvöld um leið áhuga á að leggja lið flóttafólki þaðan, svo nú á bara að henda þessum sérstöku boðsgestum ríkisstjórnar Katrínar út á guð og gaddinn. Af því einhver nefnd lögfræðinga hjá Útlendingastofnun „metur það svo“ að ástandið í Venesúela sé bara orðið fínt. Svo hypjið ykkur! Barni, sem fætt er hér á landi, verður vísað úr landi. — En Katrín er hress, það er fyrir mestu. Hún fann það svo vel í sumar hvað hún er til í þetta!“