Ágústa Johnson, eiginkona Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, hefur fengið yfir 329 milljónir króna í arðgreiðslur af Bláa lóninu. Stundin segir frá þessu í dag. Félag Ágústu, Bogmaðurinn ehf., fær greiðslurnar. Félagið var áður að helmingi í eigu Guðlaugs Þórs en síðan fært að fullu í eigu Ágústu.
Stundin upplýsir að umræddar arðgreiðslur nái til áranna 2012 til 2019. Í hagsmunaskráningu Guðlaugs Þórs er hvergi getið um þessa hagsmuni eiginkonu hans. Bláa lónið er eitt þeirra fyrirtækja sem þiggur ríkisaðstoð þessa dagana í gegnum hlutabótaleiðina.
Grímur Sæmundsson, forstjóri Bláa lónsins, fullyrti á Rás 2 að fyrirtækið myndi ekki greiða eigendum sínum arð á sama tíma og félagið þiggur ríkisaðstoð. Samkvæmt því kemur rof í arðgreiðslurnar. Stundin segir að eigendur Bláa lónsins spari sér nærri 200 milljónir króna á mánuði með ríkisaðstoðinni.
Sjá einnig: Bláa lónið tekjulaust í apríl og tekjulítið í maí – Kemur ekki til greina að greiða út arð