Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt er fram kemur í tilkynningu.
Nokkuð var um tilkynningar um hávaða og ónæði í heimahúsum í nótt og fimm voru vistaðir í fangageymslu.
Um klukkan átta í gærkvöldi var tilkynnt um karlmann í annarlegu ástandi að sparka í bifreiðar í miðbænum. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Þar kom í ljós að maðurinn á að vera í sóttkví og var hann einnig kærður fyrir brot á sóttvarnarlögum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.
Þá fékk lögregla tilkynningu um yfirstandandi innbrot í fyrirtæki í Garðabæ í nótt. Innbrotsþjófurinn, karlmaður á fertugsaldri, reyndi í fyrstu að fela sig þegar lögreglu bar að garði. Svo reyndi hann að stinga af á hlaupum. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.