Í gærkvöldi og nótt sinnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftirliti vegna samkomubanns á skemmtistöðum. Við eftirlit kom í ljós að allir staðir sem farið var á reyndust lokaðir.
Hert samkomubann tók gildi á miðnætti 24. mars og nú mega aðeins 20 manns koma saman í einu í stað 100 áður vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað meðan á samkomubanninu stendur.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja til 4. maí þær takmarkanir á samkomum og skólahaldi sem áttu að falla úr gildi 13. apríl. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis.