Sálfræðingarnir Linda Björk Oddsdóttir og Berglind Brynjólfsdóttir gagnrýndu grein Þorgríms Þráinssonar í aðsendum pistil sem birtist í dag. Ástsæli rithöfundurinn og fyrirlesarinn Þorgrímur vakti mikla athygli með grein sinni þar sem hann ræddi um vanlíðan íslenskra ungmenna og barna, slæman orðaforða þeirra, og óæskileg áhrif snjallsímanotkunar. Í kjölfarið ræddi hann einnig um málefnið í viðtali við Bítið á Bylgjunni. Ótal margir deildu grein Þorgríms og tóku undir með honum en hafa nú nokkrir aðilar stigið fram og sagst ósammála rithöfundinum.
„Undirritaðar fagna umræðunni og geta tekið undir sumt af því sem fram kom m.a. mikilvægi þess að koma böndum á skjátíma barna og unglinga og kenna þeim að umgangast tækin og miðlana öllum til heilla. Við tökum líka undir það með Þorgrími að miklar og oft óraunhæfar kröfur séu gerðar til kennara í dag,“ segja sálfræðingarnir og taka í fyrstu undir með Þorgrími.
„Í viðtalinu vísar Þorgrímur í glæru úr fyrirlestrum sínum, með þeim upplýsingum að 43% nemenda í unglingadeildum segist ekki líða vel. Ekki kemur fram hvaðan sú tala er fengin en við gerum ráð fyrir að hann vísi þar í kannanir Skólapúlsins. En hvað þýðir það að líða ekki vel? Við sem hittum börn og unglinga alla daga í okkar vinnu, fáum á okkar borð allt frá vægum vanda yfir í alvarlega vanlíðan. Öll myndu þó blessuð börnin taka undir að þeim liði ekki vel.
Það að setja alla vanlíðan undir einn hatt er mikil einföldun. Rannsóknir síðustu ára benda vissulega til að kvíði og depurð fari vaxandi meðal unglingsstúlkna á meðan líðan unglingsdrengja virðist standa meira í stað. Nokkrar tilgátur hafa þegar komið fram um ástæðu þess sem verið er að rannsaka nánar,“ skrifa þær og bæta við:
„Í starfi okkar hittum við fjölda barna og unglinga sem glíma við kvíða og þunglyndi. Sum þeirra hafa upplifað áföll, hafa orðið fyrir einelti, búa við erfiðar aðstæður eins og t.d. við líkamleg eða andleg veikindi foreldra o.s.frv. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að sýna samkennd og viðurkenna erfiða lífsreynslu og áhrif hennar.
Við hittum að sjálfsögðu líka börn og unglinga sem … eru of mikið í snjalltækjum og upplifa vanlíðan af vanvirkni, svefnleysi og skorti á tengslum við annað fólk. Þar fellst svarið líkt og Þorgrímur bendir á m.a. í að auka virkni og koma böndum á skjátíma með virkri aðkomu foreldra. Grunnur í allri okkar vinnu er að komast að því af hverju vanlíðan stafar áður en farið er af stað við að finna lausnir. Það að gera lítið úr vanlíðan unglinga sem oft hafa gengið í gegnum margt er ekki bara einföldun heldur getur bókstaflega verið skaðlegt.“ Pistilinn má lesa í heild sinni hér.