Óvíst hvað verður um ökufantinn á Hverfisgötu.
Í síðustu viku fjallaði Mannlíf um myndband sem Bragi Gunnlaugsson birti á Twitter. Myndbandið sýnir skelfilega hegðun bílstjóra bifreiðar sem keyrir tugi metra á hjólreiða- og göngustíg við Hverfisgötu. Mannlíf hafði samband við lögregluna til að spyrjast fyrir um hvernig yrði tekið á þessu máli.
„Ekki til eftirbreytni,“ svaraði Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar, þegar hann var spurður hvað honum þætti um þessa hegðun.
Í myndbandinu sést númer bílsins mjög skýrt og væri auðvelt fyrir lögregluna að hafa upp á viðkomandi. Árni sagði að lögreglan gæti ekki tjáð sig um einstök mál þegar hann var spurður hvort að lögreglan myndi bregðast við myndbandinu á einhvern máta.
Nokkur umræða hefur verið hjá reiðhjólafólki í gegnum árin að lögreglan bregðist ekki við því þegar henni séu send myndbönd af lögbrotum bílstjóra. „Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekur við fjölmörgum kærum á hverju ári. Í sumum tilvikum fylgja upptökur með en í öðrum ekki. Ef kæra bendir til refsiverðrar hegðunar og málsgögn bera með sér að eitthvað sé til í því og upplýsingar sem fylgja þess eðlis að hægt sé að skoða málið frekar, þarf í framhaldi að taka málið til rannsóknar eins og hvert annað sakamál. Að því loknu yfirfer ákærusvið Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsóknargögn og tekur ákvörðun um saksókn,“ svaraði Árni þegar hann var spurður út í þessa gagnrýni.
Why not? 🤷♂️ pic.twitter.com/MfLDo45uqx
— Peter Bragiel (@BragiGunnlaugss) October 11, 2023