Jóhann Páll Jóhannsson lét Bjarna Benediktsson heyra það á þingi undir liðnum stöf þingsins.
Í fyrradag flutti Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar, sterka ræðu undir liðnum störf þingsins. Orðum sínum beindi hann að Bjarna Benediktssyni, nýjum utanríkisráðherra. Bjarni hafði daginn áður sagt í Silfrinu á RÚV, að stigi Ísraelsher yfir þær línur sem alþjóðalög marka, myndi Ísland fordæma það.
Jóhann Páll ákvað því í ræðunni að fara yfir stöðuna í Palestínu. „Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að 2.800 manns hafi verið drepin á Gaza-svæðinu síðustu 11 daga, þar af 1.400 konur og börn. Gerðar hafa verið árásir á spítala og sjúkrastöðvar, segir stofnunin, sem gengur í berhögg við alþjóðleg mannúðarlög.“ Og Jóhann Páll hélt áfram: „Alþjóðaráð Rauða krossins hefur sent út neyðarkall vegna fyrirmæla ísraelskra yfirvalda um að íbúar Gaza um yfirgefi heimili sín innan sólarhrings. Þetta er brot á alþjóðalögum, segir Rauði krossinn. Það er líka brot á alþjóðalögum að skrúfa fyrir vatn, rafmagn, eldsneyti, mat og lífsnauðsynjar til óbreyttra borgara – og munum að hátt í helmingur íbúa Gaza-svæðisins eru börn og ungmenni.“
Þá sagði hann að sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hefðu fordæmt grimmdarverk Hamas-liða á hendur Ísraela en einnig morð Ísraelshers á saklausa borgara Gaza og Vestur-bakkans. „Alþjóðaráð Rauða krossins og sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna draga enga fjöður yfir að báðir aðilar fyrir botni Miðjarðarhafs eru að fremja stríðsglæpi.“
Spyr Jóhann að lokum hvað þurfi til svo Bjarni Benediktsson og ríkisstjórn Íslands fordæmi Ísraela. „Hvað þarf að ganga á til þess að íslensk stjórnvöld viðurkenni að hér hefur fyrir löngu verið „stigið yfir þær línur“ sem alþjóðalög marka, að stríðsglæpur er stríðsglæpur sama hver fremur hann?“
Ræðuna má lesa í heild sinni hér:
Hæstvirtur utanríkisráðherra Bjarni Benediktsson sagði í Silfrinu í gær að ef Ísraelsher stigi yfir þær línur sem alþjóðalög marka þá myndi Ísland fordæma það.