Óskar Magnússon birti fyrir skemmstu færslu á samfélagsmiðlum Facebook þess efnis að Kerið hafi nú verið selt eftir að hafa verið í eigu hans og meðeigenda í 23 ár:
„Við vinirnir, Bolli í 17 og Hagkaupsbræður, Jón og Sigurður Gísli, höfum nú selt Kerfélagið.
Við keyptum Kerið fyrir 23 árum, þegar ríkið vildi ekki kaupa af bændunum og ætlaðist til þess að þeir héldu þar öllu í standi á eigin reikning.“
Útskýrir Óskar hvað staðið hafi að baki gjaldtökunni sem sett var á laggirnar og orkaði töluvers tvímælis meðal margra Íslendinga.
„Við höfðum bara náttúruvernd í huga og engum hugkvæmdist gjaldtaka. Þetta var skyndiákvörðun, tekin í hálfgerðu bríaríi. Það er ekki á hverjum degi sem hægt er að eignast eldgíg.
Það var svo ekki fyrr en 13 árum síðar að ferðamennskan var farin svo úr böndunum að ekki var á annað kosið en að hefja gjaldtöku. Byggja palla, tröppur, stíga og stórbæta bílastæði. Innviðirnir voru komnir til sögunnar.
Þá varð allt vitlaust. Við tókum ágjöfunum, stóðum þær af okkur og um síðir lægði öldur,“ útskýrir Óskar í færslunni.
Hann tekur jafnframt fram að með tímanum hafi fólk séð að aðgangseyrinn var nýttur til frekari uppbyggingar og að ríkið hafi síðar fylgt fordæmi þeirra er það hóf gjaldtöku á Þingvöllum: „Nú er það viðtekin venja, óumdeild og átölulaus af ferðamönnum.“
Hann segir söluna vera vegna samþykkis á deiliskipulagi og frekari uppbyggingu í kortunum og að: „ …félagar mínir farnir að reskjast og síður tilbúnir í erfiðar ákvarðanir sem fylgja umsvifamiklum rekstri.“
Hér að neðan má sjá færslu Óskars í heild: