Fjölmiðlafræðingurinn Sigrún Stefánsdóttir skorar á íslensk yfirvöld að fylgja fordæmi Dana og styðja við starfsemi sjálfstætt starfandi fjölmiðla á þeim óvissutímum sem nú eru uppi. Sigrún skrifar um málið í pistil sem birtist á vef Kjarnans.
„Á sama tíma og fyrirtæki draga úr starfsemi sinni og jafnvel loka vegna kórónuveirunnar, treystum við því að fjölmiðlar fræði okkur áfram um ástandið, standi vörð um velferð okkar og geðheilsu og séu okkar bestu vinir á löngum dögum innilokunar. Krafan er jafnvel sú að miðlarnir gefi í og auki þjónustu við okkur sem heima sitjum,“ skrifar Sigrún sem situr í stjórn fjölmiðlafyrirtækisins N4.
„Ég hef stolt fylgst með því hvernig framkvæmdastjóri þess og starfsfólk hafa hagrætt og endurskoðað allan reksturinn til þess að þrauka á undanförnum árum,“ skrifar Sigrún. Hún segir hver mánaðamót vera fyrirkvíðanleg en að starfsfólk gefi þá frekar í heldur en að leggja árar í bát. Sigrún segir að ofan á aukið vinnuálag bætast fjárhagsáhyggjur og áhyggjur af starfsöryggi og heilsu.
Spyr hvað gerist ef fjölmiðlar gefast vegna fjárskorts
Sigrún segir fjölmiðla lengi hafa barist í bökkum en að ástandið fari nú versnandi og að óvissan aukist.
„Fylgifiskur þess að fyrirtækin í landinu draga saman starfsemi er samdráttur í auglýsingatekjum sjálfstætt starfandi fjölmiðla. Þessa hefur þegar orðið áþreifanlega vart. Fjölmiðlarnir hafa lengi barist í bökkum og reynt að þregja Þorrann í þeirri von að fjölmiðlafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um stuðning við sjálfstætt starfandi fjölmiðla næði fram að ganga. Eðlilega hverfur þetta frumvarp um stund í skuggann fyrir lífróðri ríkisstjórnar á þessum krísutímum. En hvar verðum við stödd ef þessir fjölmiðlar gefast nú upp og loka vegna fjárskorts?“
Sigrún er viss um að án stuðnings yfirvalda þá styttist í að einhver fjölmiðlafyrirtæki landsins gefist upp vegna fjárskorts.
Í skrifum sínum skorar Sigrún á mennta- og menningarmálaráðherra og íslensk stjórnvöld að taka Dani sér til fyrirmynda og geri björgunarpakka fyrir íslenska fjölmiðla. Hún segir að það þurfi að bregðast hratt við þannig að fjölmiðlafólk geti áfram sinnt hlutverki sínu án þess að óttast um að missa vinnuna. „Þeir [Danir] hafa samþykkt mikilvægan stuðning til fjölmiðla til þess að mæta tekjubresti vegna samdráttar í auglýsingum.“
„Ég skora á yfirvöld að fara að dæmi Dana og styðja strax við starfsemi sjálfstætt starfandi fjölmiðla út frá svipuðum viðmiðum og Danir hafa gert.“
Pistil Sigrúnar má lesa í heild sinni hérna.