Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Dropinn sem fyllti mælinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ósætti hefur ríkt innan veggja SÁÁ um nokkurt skeið. Spjótin beinast að Arnþóri Jónssyni, formanni SÁÁ, og Þórarni Tyrfingssyni, fyrrverandi yfirlækni og stjórnanda á Vogi, og eru þeir sakaðir um einelti í garð æðstu stjórnenda á Vogi. Þrátt fyrir að Þórarinn hafi hætt klínísku starfi í maí 2017 og ekki unnið við meðferðina á stofnuninni síðan þá gegnir hann enn hlutverki innan samtakanna, jafnvel of stóru að mati ýmissa heimildamanna Mannlífs og er hann sakaður um að hafa að tjaldabaki unnið gegn núverandi yfirmönnum heilbrigðissviðsins. Þá er Arnþór formaður sagður ganga erinda yfirlæknisins fyrrverandi innan framkvæmdastjórnar SÁÁ.

„Kannski átti stjórnin ekki von á því að ég myndi stíga niður fæti. Kannski er þetta gert í þeirri von að ég segði upp. Afleiðingarnar af þessu hafa verið rosalega miklar og ég finn alls staðar skilning á þeim sjónarmiðum sem ég er að setja fram,“ segir Valgerður Á. Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ.

Þau sjónarmið segir hún fyrst og fremst snúa að því að aðskilja þurfi stjórnun félagasamtakanna og stjórnun heilbrigðisstofnanna sem samtökunum tengjast.

„Ég vona að stjórn samtakanna horfist í augu við það og beri gæfu til að leysa úr þessari alvarlegu stöðu. Það hlýtur bara að gerast. Fyrir mér er meðferðin aðalatriðið og hverjir taka ákvarðanir um faglegan rekstur á sjúkrastofnunum. Þær ákvarðanir eiga ekki að vera í höndum stjórnar félagasamtaka.“

Rangt mat

Valgerður telur að stjórnin meti það rangt að fjárstuðningur fáist ekki frá yfirvöldum eftir að fjáröflunarleiðir samtakanna brugðust vegna kórónuveirufaraldursins. Hún viðurkennir að hún hafi um nokkurt skeið glímt við mótbyr frá ákveðnum aðilum tengdum SÁÁ.

- Auglýsing -

„Auðvitað hefur stjórnin gefið þær skýringar að þetta snúist um peninga en ég held að það sé bara ekki rétt mat hjá henni. Starfsemin þarna er svo miklu meira virði en svo að stjórnvöld vilji ekki aðstoða og passa upp á að þetta fari allt saman vel,“ segir Valgerður.

„Þetta er tilfinningaríkt allt saman. Það eru margir sem eiga samtökunum líf sitt að launa og ég er ein af þeim.“

„Ég er dálítið forvitin að komast að því hvaða hópur það er nákvæmlega sem styður stjórnarformanninn á þessari vegferð. Þetta sem gerðist núna nýverið var dropinn sem fyllti mælinn. Þetta er tilfinningaríkt allt saman. Það eru margir sem eiga samtökunum líf sitt að launa og ég er ein af þeim. En það má ekki blanda tilfinningum inn í þetta.“

Hættir að öllu óbreyttu

- Auglýsing -

Valgerður er hörð á því að standa við uppsögn sína verði hlutverki framkvæmdastjórnar SÁÁ og sér í lagi hlutverki stjórnarformanns samtakanna ekki aðskilið frá faglegum rekstri sjúkrastofnanna. Hún telur eðlilegt að núverandi formaður og stjórn stígi til hliðar enda sé mörgum brugðið við hversu einkennilega hafi verið staðið að málum.

Í nýjasta Mannlífi er fjallað nánar um stöðuna sem er komin upp hjá SÁÁ.

„Það virðist nokkuð skýrt hvernig stjórnin vill hafa hlutina og kannski getur hún bara haft þetta svona. Ég get ekki hugsað mér að vera í þessu umhverfi áfram. Stjórnin verður þá bara að gera þetta með öðru fólki og það kemur auðvitað alltaf maður í manns stað,“ segir Valgerður og leggur þunga áherslu á að meðferðarþjónusta SÁÁ snúist ekki um hana sjálfa.

„Það eru einhverjir þar sem vilja stýra öllu því hvað gerist inni á gólfinu.“

Hún hefur miklar áhyggjur af því að aðgerðir stjórnarinnar og umræðan sem af þeim skapast sverti hið góða starf sem unnið hefur verið undir merkjum samtakanna. „Ég hef bara áhyggjur af meðferðinni, það þarf annars konar stjórn yfir heilbrigðisrekstrinum og hún verður að vera alveg laus við inngrip framkvæmdastjórnar félagasamtaka, m.a. um starfsmannamál. Ég hef áhyggjur af því að núverandi stjórn samtakanna geri sér ekki grein fyrir að þetta er ekki í lagi og ætli bara að láta þetta ganga eftir. Það eru einhverjir þar sem vilja stýra öllu því hvað gerist inni á gólfinu.“

Ekki fórnarlamb

Helst af öllu segir Valgerður auðvitað vilja halda áfram starfi sínu hjá SÁÁ. Hún lítur ekki á sig sem fórnarlamb og hefur ekki áhyggjur af sjálfri sér.

„Ég vil auðvitað áfram leiða þetta starf, þetta er svo gríðarlega mikilvæg starfsemi sem má ekki verða fyrir þessu hnjaski sem gjörningar framkvæmdastjórnarinnar valda. Mér finnst svo glatað þegar þetta fer að snúast um einhverja einstaklinga. Ég þoli alls konar skít og hef synt fram hjá honum lengi. En ég er ekki pólitíkus og kann ekki þennan leik. Kannski er þetta brölt bara kolólöglegt allt saman en ég hafði ekki hugsað mér að láta lögfræðinga skoða það, mér finnst það ekki spennandi kostur. Ég lít ekki á mig sem fórnarlamb og hef engar áhyggjur af sjálfri mér.“

Nánar um málið í helgarblaðinu Mannlíf.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -