Núna er hægt að sækja smitrakningarappið Rakning C-19 endurgjaldslaust í App Store. Ennþá er beðið eftir að appið verði fáanlegt í Play Store.
„Því fleiri sem sækja appið, þeim mun betur mun það gagnast smitrakningateyminu. Appið mun þó engu að síður gagnast við að aðstoða alla, sem velja að taka þátt, við að rifja upp ferðir sínar. Við biðlum nú til almennings að nálgast appið og vista á símtækjum sínum í þeirri viðleitni að halda áfram í því verkefni að lágmarka skaðann af COVID-19. Við erum öll almannavarnir,“ segir um appið á vef Landlæknis.
Alma Möller landlæknir ræddi forritið á upplýsingafundi á þriðjudaginn. Hún sagði forritið byggja á svokölluðu tvöföldu samþykki, þ.e. notandinn þarf fyrst að samþykkja að sækja forritið í símann sinn. Forritið fylgist svo með ferðum út frá GPS. Þær upplýsingar eru geymdar í síma viðkomandi. „Ef notandinn greinist svo með COVID-19 þá þarf notandi svo að veita smitrakningarteymi leyfi til að nálgast upplýsingarnar,“ sagði Alma.
Síminn geymir staðsetningar síðustu 14 daga. Eldri gögn eyðast sjálfkrafa.
Sjá einnig: Skilur að fólk hiki við að sækja smáforritið