Yfir 26 þúsund umsóknir hafa borist vil Vinnumálastofnunar um greiðslur á móti skertu starfshlutfalli. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, greindi frá þessu á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna COVID-19 í dag.
Hún sagði álagið á starfsfólk Vinnumálastofnunar vera mikið vegna þess fjölda umsókna sem berast núna.
Unnur sagði að um helmingur umsókna tengist ferðaþjónustunni, með beinum eða óbeinum hætti. 22% umsókna koma frá fólki sem starfar í gisti- og veitingaþjónustu tók Unnur sem dæmi.
76% umsækjenda eru Íslendingar og 24% umsækjenda eru af erlendu bergi brotnir að sögn Unnar. Kynjahlutfallið er nokkuð jafnt.
Hvetur fólk til að skoða heimasíðuna
Vegna mikils álags á Vinnumálastofnun vill Unnur beina því til fólks að skoða Mínar síður og Spurt og svarað á heimasíðu stofnunarinnar áður en það hringir inn í þjónustuverið eða sendir tölvupóst. Hún sagði starfsmenn Vinnumálastofnunar fá á bilinu 700 til 800 fyrirspurnir í gegnum netfang stofnunarinnar á sólarhring.
„Það tekur ykkur örugglega styttri tíma að leita á vefnum heldur en að hringja,“ sagði Unnur. Hún nýtti tækifærið og þakkaði starfsfólki Vinnumálastofnunar fyrir vel unnin störf á þessum krefjandi tímum.