Bíræfinn þjófur rændi söfnunarbauki úr verslun í miðborginni í gær. Lögreglumenn fóru strax á stúfana og fundu aðilann stuttu seinna. Hann hefði betur látið það ógert að ræna bauknum því á daginn kom að hann var eftirlýstur. Hann var umsvifalaust handtekinn og vistaður í fangaklefa þart sem hann bíður þess sem verða vill.
Í miðborginni voru afskipti höfð af manni í heimahúsi. Sá reyndist vera vopnaður og með þónokkurt magn af fíkniefnum á sér. Á öðrum stað og í öðru heimahúsi var ölvaður maður handtekinn eftir að hafa veist að öðrum. Dólgurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Í austurborginni var tilkynnt um útafakstur. Engin slys urðu á fólki en nokkurt tjón varð á bifreiðinni.
Ökumaður var stöðvaður við akstur grunaður um akstur undir áhrifum lyfja.
Lögreglan var kölluð til vegna skemmdarverka við fyrirtæki þar sem að búið var að skera á hjólbarða bifreiða. Óljóst er með gerendur eða ástæður þeirra.
Lögreglan stöðvaði ökumann á hraðferð. Þá vaknaði grunur lögreglumanna að ökumaður væri undir áhrifum fíkniefna. Ökumaður var handtekinn og færður í sýnatöku. Honum verður í framhaldinu refsað ef sök sannast.