„Fyrst stjórnvöld ætla sér ekki að grípa þar inn í þá VERÐUM við að láta í okkur heyra. Það er alveg ljóst að bankarnir ætla sér að þrýsta fólki fram af brúninni og þvinga okkur í að taka verðtryggð húsnæðislán. Þeir sem eiga lítinn hlut í sínum eignum munu horfa upp á verðtygginuna éta hann upp á örfáum misserum, lánið vaxa yfir verðið og sitja fastir eða missa húsnæðið sitt,“ segir Íris Dröfn Kristjánsdóttir í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook. Með færslunni birtir hún skjáskot af greiðsluseðli íbúðaláns hjá Landsbankanum.
Þar sést að af rúmlega 57 milljón króna láni er greidd hálf milljón í mánaðarlegar greiðslur af henni fara rúmar 10 þúsund inn á höfuðstól og tæp 490 þúsund í vaxtargreiðslur til bankans.
„Ef við horfum alveg raunsætt á stöðuna eins og hún er í dag þá eru launin ekki svo lág ef við berum okkur saman við nágrannaþjóðir. Það eru vextir bankanna og hátt verð á nauðsynjavörum sem eru að gera út af við meðal manninn* svo ég tali nú ekki um þá sem eru á lágmarkslaunum, ellilífeyrisþega og öryrkja,“ skrifar Íris Dröfn.
Hún bendir jafnframt á að Stjórnarráð Ísland hafi ekki uppfært neysluviðmið sín í fjögur ár, en þau eiga að gefa viðmið um hversu mikið einstaklingur þurfi til að lifa af, að húsnæðiskostnaði undanskildnum. Í október 2019 var sú upphæð 198.048 krónur og miðað við gefnar forsendur væru sú upphæð að öllum líkindum nær 250 þúsund krónum.
Íris Dröfn hvetur sem flesta til að opna á umræðuna um málefnið og viðhalda á málefnalegum nótum.
Verðbólgan keyrð áfram af Seðlabankanum
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, birti nýverið pistil undir yfirskriftinni Stóra tilfærslan í boði Seðlabankans. Í pistilinum tekur hann fram að verðbólgan sé keyrð áfram á stýrivaxtahækkunum Seðlabankans og bendir á að þessu botnlausa dekri við fjármálakerfið verði að linna:
„Hreinar vaxtatekjur stóru bankanna þriggja jukust um 20% á milli ára og hafa aukist um 46% frá árinu 2021 þegar hreinar vaxtatekjur þeirra voru 77,2 milljarðar frá jan-sept. En eru nú 112,9 milljarðar.