Margt var um manninn í miðbænum í nótt og mikill erill hjá lögreglu er kemur fram í dagbók hennar. Slagsmál og líkamsárásir einkenndu nóttina og fengu tíu að dúsa í grjótinu í nótt.
Lögreglu barst tilkynning um ribbalda sem ögraði og ítrekað egndi til slagsmála. Hann var handtekinn og kærður fyrir lögreglusamþykkt. Að því loknu var honum sleppt lausum og fékk að halda til síns heima.
Á þriðja tímanum í nótt sinnti lögreglan í það minnsta tveimur útköllum vegna slagsmála fyrir utan skemmtistaði.
Tveir slagsmálahundar reyndu að hlaupa undan lögreglu um klukkan fjögur í nótt. Lögreglan hafði hendur í hári beggja og voru þeir meðal þeirra tíu sem gistu í fangaklefa.