Netverjar ráku margir upp stór augu í morgun þegar þeir sáu frétt í dreifingu á samfélagsmiðlum um fjöldamorðingja en fréttin var myndskreytt með mynd af Þórólfi Guðnasyni sóttvarnrlækni.
Fréttin birtist á vef RÚV en sökum álags á vefþjóna hefur borið á því að röng mynd festi sig við færslur á ruv.is þegar þeim er deilt á samfélagsmiðla. Þetta kemur fram í grein á vef RÚV þar sem málið er útskýrt.
Þar segir að vandinn liggi í tengingu Facebook við vef RÚV. Þar kemur einnig fram að verið sé að greina vandamálið.
Í grein sinni biður RÚV Þórólf afsökunar á að mynd af honum hafi ratað inn í frétt um játningu fjöldamorðingja í Nýja-Sjálandi.