Grunur er um að fólk hafi sofið í kjallaranum að Sóltúni 20, innan um fjöldi tonna af matvælum sem geymd voru þar. Illa gekk að farga matnum þar sem starfsmenn eiganda matvaranna reyndu að fela mat í runnum og bakpokum.
Ríkisútvarpið segir í frétt sinni að vísbendingar séu um að fólk hafi hafst við í kjallaranum að Sóltúni 20 en þar voru geymd 18 tonn af matvælum á ólöglegan hátt, innan um rottur og önnur meindýr. Kemur þetta fram í skýrslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Lögreglan hefur verið tilkynnt um mögulega dvöl fólks í kjallaranum.
„Húsnæðið var óhreint, ekki meindýrahelt og áttu skaðvaldar, s.s. nagdýr, greiðan aðgang undir vörudyr en einnig upp um opin niðurföll,“ segir í skýrslunni. Þá hafi dýnur, koddar, matarílát og tjald fundust ofan á sekkjum á lagernum.
Ríflega 18 tonnum af matvörum var fargað eftir rassíu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í kjallaranum í Sóltúni 20. Förgunin hófst í september en lauk í byrjun október. Starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins voru sendir á vettvang til að fylgjast með starfsmönnum á vegum eiganda matvaranna, henda úr lagernum.
Samkvæmt skýrslunni ætlaði eigandinn að fá sex starfsmenn. Samþykkti Heilbrigðiseftirlitið það en gerði eigandanum skýrt grein fyrir því að framkvæmd förgunarinnar yrði stöðvuð ef þeir yrðu varir við undanskot á matvælum, óþarfa tafir eða óstjórn, eins og það er orðað á RÚV.
Alls skráðu fjórir heilbrigðisfulltrúar og mynduðu öll matvæli áður en þeim var fargað en fjórir aðri fulltrúar fylgdust með verkinu utandyra. Sjálfur eigandi matvælanna mætti á vettvang en tveir starfsmenn hans mættu í byrjun dags til að farga matnum. Tveir starfsmenn til viðbótar bætust svo við um hádegi en þá hafði verið búið að fylla einn gám. Verkið tók langan tíma þrátt fyrir fjölgun starfsmanna.
„Á þeim tímapunkti kom í ljós að starfsmenn við förgunina voru að koma matvælum undan og höfðu hent matvælum í nærliggjandi runna, fyllt bakpoka með matvælum og komið þeim fyrir á ýmsum stöðum utan rýmisins,“ segir í skýrslunni. Ákvörðun var tekin klukkan 14:30 að stöðva förgunina og innsiglaði Heilbrigðiseftirlitið húsnæðið.
Með aðstoð verktaka lauk förguninni 2. október.