Um 240 starfsmönnum Icelandair verður sagt upp störfum og 92% starfsmanna fyrirtækisins munu fara í skert starfshlutfall tímabundið. Þeir sem verða áfram í fullu starfi lækka um tugi prósenta í launum. Uppsagnirnar ná til flestra hópa innan félagsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair sendir á fjölmiðla. Þar er fjallað um þær aðgerðir sem félagði hefur þurft að grípa til vegnaútbreiðslu COVID-19. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir aðgerðirnar sársaukafullar, en nauðsynlegar.
„Þetta eru sögulegir tímar þar sem heimsfaraldur geisar sem hefur haft gríðarleg áhrif á flug og ferðalög. Mikilvægasta verkefnið núna er að tryggja rekstrargrundvöll Icelandair Group til framtíðar. Þær aðgerðir sem við kynntum fyrir starfsfólki okkar í dag eru sársaukafullar en nauðsynlegar til að takmarka áhrif þeirra aðstæðna sem uppi eru á rekstur og sjóðstreymi félagins.
Félagið hefur staðist ýmis áföll í gegnum tíðina, hvort sem það hefur verið barátta við náttúruöflin, efnahagslægðir eða aðra utanaðkomandi þætti. Við höfum komist í gegnum þau öll með samstöðu og útsjónarsemi, en fyrst og fremst með þeim einstaka baráttuanda og krafti sem ávallt hefur einkennt starfsfólk félagsins. Það hefur svo sannarlega sýnt sig undanfarna daga og vikur. Ég er stoltur og þakklátur að tilheyra þeirri öflugu liðsheild sem starfsfólk Icelandair Group myndar og er sannfærður um að við komumst í gegnum þessar krefjandi aðstæður,“ er haft eftir Boga í tilkynningunni.